Það er skoðun skólans að dansleikir á vegum hans séu mikilvægur þáttur í félagslífi nemenda. Markmið skólans er að þessir dansleikir fari vel fram þannig að þeir séu skólanum og nemendum hans til sóma. Skólinn álítur að til þess að það markmið náist þurfi til öflugt samstarf þeirra sem að þessum atburðum koma, svo sem skólans, félagsmálastjóra forvarnarfulltrúa, SMS, nemenda og foreldra/forráðamanna þeirra.
ÖLVUN ÓGILDIR MIÐA
- Dansleikir á vegum Menntaskólans við Sund eru haldnir á ábyrgð rektors og undir umsjón starfsfólks skólans og SMS.
- Umsjón með gæslu á dansleikjum er í höndum félagsmálastjóra.
- Dansleikir eru leyfðir til kl. 1:00. Hætt er að hleypa inn kl. 23:00.
- Miðasala fer fram í gegnum miðasölukerfi þar sem upplýsingar eru skráðar um kaupanda. Félagsmálastjóri heldur utan um lista með nöfnum gesta, kennitölum þeirra og símanúmerum og skal sá listi vera tilbúinn áður en dansleikur hefst. Allir sem kaupa miða sækja armband til stjórnar SMS / félagsmálastjóra áður en dansleikur hefst og sýna miða auk skilríkja við afhendingu armbands.
- Fjöldi gæslumanna skal vera í samræmi við kröfur lögreglu þar um.
- Á dansleikjum skal fyrirfram vera gengið þannig frá röð við inngang að ekki skapist hætta á miklum troðningi. Unnið skal að því að dreifa aðsókninni á lengra tímabil með eftirfarandi hætti: Nemendur á 1. ári mæta á bilinu 22:00-22:20, 2. ár mætir 22:20-22:40 og 3. ár mætir 22:40-23:00.
- Á hverjum dansleik eru foreldrar boðaðir á foreldrarölt fyrir utan ballstað. Kennslustjóri og foreldraráð sér um að boða aðstandendur á röltið vikuna fyrir dansleikinn með því að senda út skráningarlista á alla aðstandendur.
- Efla skal samstarf SMS og forvarnarfulltrúa skólans með það markmið í huga að vinna gegn neyslu og drykkju nemenda fyrir dansleiki.
- Allir nýnemar blása í áfengismæli á leið inn á ballið og er það skilyrði fyrir inngöngu á ballið. Neiti nemandi að blása eða ef hann reynist undir áhrifum áfengis er viðkomandi vísað af ballinu og hringt í forsjárfólk
- Nemendur sem voru í edrúpotti á síðasta balli mega bjóða með sér gesti á næsta ball í samræmi við ákvarðanir hverju sinni. Nemendur í SMS njóta forgangs við kaup á miðum.
- Engar vínveitingar eru leyfðar á skóladansleikjum né meðferð áfengis og annarra vímuefna. Nemendum, sem koma undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna, er ekki hleypt inn á dansleiki skólans. Ölvun ógildir miða.
- Starfsfólk skólans hefur samstundis samband við aðstandendur þeirra nemenda, undir 18 ára, sem þarf að hafa afskipti af vegna óláta eða ölvunar.
- Þurfi starfsmenn að hafa afskipti af nemanda sem er undir áhrifum eða vegna óláta munu félagsmálastjóri, forvarnafulltrúi og kennslustjóri taka mál hans til meðferðar svo skjótt sem auðið er. Afleiðingin getur verið viðvörun og/eða takmörkun þátttöku nemanda í félagslífi skólans.
- Dansleikir SMS eru tóbaks- og veiplausir. Komi gestir með slíkt inn á dansleikinn er því fargað.
- Nemendafélag skólans og Menntaskólinn við Sund munu funda fyrir og eftir dansleiki og skulu aðilar skila skýrslu um dansleikinn til rektors eigi síðar en viku frá dansleik.
Endurskoðaðar reglur samþykktar á fundi skólaráðs 31.10.24.