Þátttaka nemenda í námsferðum á vegum skólans
Áður en nemandi er skráður þátttakandi í námsferð þarf hann að staðfesta þátttöku sína með undirskrift og að hann muni hlýta reglum skólans í námsferðinni og verkstjórnarvaldi kennara. Ef nemandi er undir 18 ára aldri við upphaf ferðar þarf skólinn skriflegt samþykkt forráðamanns fyrir þátttöku nemandans í ferðinni. Slíkt eyðublað má finna hér og kallast samþykkisyfirlýsing.
Ábyrgð nemenda í námsferðum
Nemendur sem taka þátt í námsferðum á vegum skólans skuldbinda sig til þess að virða að fullu verkstjórnarvald þeirra kennara sem stýra ferðinni. Jafnframt skuldbinda nemendur sig með þátttöku í ferðinni að virða skólareglur í ferðinni, þar á meðal reglur skólans um bann við notkun áfengis, nikótíngjafa eða annarra vímuefna. Með þátttöku í ferð undirgangast nemendur þær sérreglur sem gilda í ferðinni, til dæmis um þátttöku, útvistarreglur, samskipti og svo framvegis. Óháð dagskrá námsferða hverju sinni þá gilda reglur skólans alla námsferðina, jafnt á kvöldin og um helgar sem og á dagtíma.
Námsmat vegna þátttöku í ferðum
Námsferðir eru hluti af námi viðkomandi áfanga. Kveðið er á um í námsáætlun hvernig námsmati vegna ferðar skuli háttað. Virkni og þátttaka nemandans í námsferðinni hefur áhrif á námsmatið.
Brot á reglum í námsferð
Komi til brota á reglum skólans skrá viðkomandi kennarar þau í skýrslu til skólans sem er skilað til rektors að lokinni námsferð. Ef um alvarleg brot er að ræða og viðkomandi aðili hlýtir ekki fyrirmælum kennara getur komið til þess að vísa þurfi nemanda úr hópnum sem neyðarúrræði. Ef nemandi er orðinn sjálfráða getur hann þurft að víkja úr hópnum og ganga frá eigin málum á eigin kostnað. Ef viðkomandi nemandi er ekki sjálfráða verður haft samband við forráðamann hans áður en ákvörðun er tekin um viðbrögð.
Síðast uppfært 13.11.2024