Samvinnunám úr Njálu - starfendarannsókn - útdráttur

Hjördís Alda Hreiðarsdóttir og Sigurrós Erlingsdóttir, íslenskukennarar í Menntaskólanum við Sund.

Útdráttur

„Allt orkar tvímælis þá er gert er“: Samvinnunám í Brennu-Njáls sögu

Í erindinu verður fjallað um hvernig gekk að innleiða samvinnunámsaðferð í nám og kennslu í Brennu-Njáls sögu í Menntaskólanum við Sund skólaárið 2018-2019. Aðferðin sem við beittum byggist á útfærslu Guðrúnar Pétursdóttur á samvinnunámi í fjölbreyttum nemendahópi. Aðferðin þjálfar nemendur í að fylgja ákveðnum hlutverkum, að leysa verkefni innan ákveðinna tímamarka, að taka tillit til annarra (hlusta og bíða) og að gefa af sér til hópsins. Markmið okkar var að vekja áhuga nemenda á Njálu og hvetja þá til sjálfstæðra vinnubragða, efla frumkvæði þeirra, gagnrýna hugsun og sköpunarkraft. Í kennslunni tókumst við á við tvenns konar áskoranir. Annars vegar að beita námsaðferðinni og hins vegar að útfæra verkefni eins og aðferðin krefst án þess að það kæmi niður á námsefninu sjálfu. Hjá okkur vöknuðu ýmsar spurningar um það hvernig best væri að útfæra Njálu í samvinnunámsverkefnunum en að lokum fórum við þá leið að velja nokkur þemu úr sögunni og byggja verkefnin á þeim. Tilraun okkar leiddi til ákveðinnar togstreitu gagnvart nemendum sem höfðu ólíkar væntingar og viðhorf til þess hvernig kennslustundir ættu að vera. Eftir veturinn könnuðum við viðhorf nemenda til samvinnunámsins sem gaf þó til kynna nokkra ánægju með aðferðina. Í erindinu munum við fjalla nánar um þessa togstreitu og árangurinn af innleiðingunni. Við styðjumst við frumkvæðiskvarða Gerðar G. Óskarsdóttur til að greina hvort tilraun okkar hafi skilað árangri, þ.e. hvort okkur hafi tekist að efla sköpunarkraft og frumkvæði nemenda.