Ferð til Lettlands á vegum Erasmus+ í september 2023
Í september fóru sjö nemendur og tveir kennarar úr MS í ferð á vegum Erasmus+ til Lettlands. Um er að ræða verkefni á milli Finnlands, Lettlands, Litháens og Íslands sem ber yfirskriftina „Love for Water is in the Air“. Í apríl kemur hópurinn hingað til lands og á næsta skólaári verður farið til Finnlands og Litháen. Hér á eftir fer stutt ferðasaga.
Föstudaginn 15. september 2023 lögðum við af stað til Roja í Lettlandi. Með í för voru Katrín, umhverfisfræðikennari og Unnur, efnafræðikennari ásamt sjö nemendum úr MS þeim Aroni, Bryndísi, Hildi, Katrínu, Ninju, Theodóru og Þóreyju. Flogið var til Riga og lentum við þar að kvöldi til. Á flugvellinum í Riga hittum við Zane sem skipulagði ferðina og starfar sem tungumálakennari í Roja. Roja er smábær við ströndina í vesturhluta landsins og þar gistum við á hosteli sem var tengt leik- og grunnskólanum á staðnum. Þar gistu einnig sjö nemendur frá Finnlandi og sjö nemendur frá Litháen ásamt kennurum þeirra.
Laugardaginn 16. september hittum við Guidas sem er kennari í Roja og leiddi hann okkur ásamt öllum nemendunum í kajak siglingu niður ána sem rennur í gegnum bæinn. Veðrið var gott en mikið vatn var í ánni og margar hindranir (trjábolir) vegna nýafstaðins óveðurs. Þetta reyndist vera mikið ævintýri og reyndi á þolþrif nemenda og kennara í hópnum. Þarna reyndi á samstarf og samtal þeirra sem voru saman í bát til að komast fram hjá hindrunum og leysa önnur vandamál. Í hádeginu stoppuðum við og grilluðum pylsur og þau sem þess óskuðu héldu áfram leið sinni niður ána. Samtals var siglingin um 7 klukkustundir fyrir þau sem fóru alla leið.
Sunnudagurinn 17. september hittust nemendur og kennarar á íþróttavellinum þar sem farið var í ýmsa leiki til að nemendur gætu kynnst betur, t.d. körfubolta, brennó, stórfiskaleik, bingó og fleira skemmtilegt. Eftir hádegi fórum við í ART vinnustofu þar sem við hittum leirlistakonu. Þar fengum við að leira og verkefnið var að búa til fiska.
Mánudaginn 18. september heimsóttum við Zane í skólanum. Þar áttu nemendurnir að mála leirlistaverkin sín og fara í dansvinnustofu þar sem þau lærðu nokkra lettneska dansa. Eftir hádegi fengu nemendur það hlutverk að útbúa kynningu um skólana sína og segja frá sínu landi og reynslu þeirra af ferðinni. Síðar um daginn hittist allur hópurinn og horfði á kynningarnar, sérstaklega var gaman að sjá kynningarnar frá hinum löndunum. Íslensku nemendurnir stóðu sig mjög vel í kynningunum. Eftir það var tungumálakennsla milli mismunandi landa og diskótek um kvöldið. Þegar hér var komið við sögu voru nemendur milli landanna farnir að tala meira saman og kynnast innbyrðis.
Þriðjudaginn 19. september lögðum við snemma af stað til Riga. Ákveðið var að eyða síðasta deginum í Riga og kynnast borginni betur. Zane ásamt nemendum hennar sýndu okkur helstu kennileiti höfuðborgarinnar. Þetta var frjáls dagur sem margir eyddu í að versla og slaka á.
Miðvikudaginn 20. september flugum við svo heim til Íslands eftir vel heppnaða ferð.
Unnur Sigmarsdóttir og Katrín Magnúsdóttir