Mennta- og barnamálaráðuneytið ákveður fyrirkomulag innritunar í framhaldsskóla og gefur út leiðbeiningar til umsækjenda um frágang umsókna. Umsóknum skal skila rafrænt á vef Menntagáttar www.menntagatt.is. Ráðuneytið auglýsir umsóknarfrest um skólavist í framhaldsskólum. Til að umsóknir um skólavist teljist gildar verður að skila þeim áður en umsóknarfrestur rennur út. Fái nemandi jákvætt svar er gefinn hæfilegur frestur til að greiða skólagjöld. Litið er á greiðslu skólagjalda sem staðfestingu á að nemandinn þiggi skólavist og sé reiðubúinn að hlíta reglum skólans. Fyrsti skóladagur er tilgreindur í svarbréfi til umsækjenda og forráðamanna þeirra.
Inntökuskilyrði
- Almennt skilyrði þess að hefja nám til stúdentsprófs í Menntaskólanum við Sund á öðru hæfnistigi í lykilgreinum haustið 2024 er að hafa hlotið að lágmarki einkunnina B í íslensku, stærðfræði og ensku við lok grunnskóla. Við úrvinnslu umsókna áður en þær eru sendar til miðlægrar keyrslu eru einkunnir í dönsku, náttúrufræði og samfélagsfræði einnig bornar saman eftir fyrirfram ákveðnu kerfi.
- Nemendur verða teknir inn eftir stigafjölda en einnig verður horft til kynjahlutfalla og mun hlutfall hvers kyns ekki fara yfir 60% innritaðra nemenda.
- Skólinn áskilur sér rétt til að taka inn nemendur með erlendan tungumála- og menningarbakgrunn með lægri einkunn í íslensku ef þeir uppfylla inntökuskilyrði að öðru leyti.
Síðast uppfært: 15.01.2024