Umhverfisvika í MS og Nordplus heimsókn

 

Í liðinni viku fór fram umhverfisvika í MS sem var skipulögð af umhverfisnefnd skólans. Í umhverfisnefnd eru nemendur í grænfánaáfanga sem Katrín Magnúsdóttir umhverfisfræðikennari við skólann hefur umsjón með.

Í áfanganum kynnast nemendur verkferlum þess umhverfisstjórnunarkerfis sem verkefnið Skólar á grænni græn byggir á og þar beita nemendur áhrifum sínum í átt að aukinni sjálfbærni innan skólans og nærsamfélagsins. Áfanginn er kenndur yfir allt skólaárið og nær hámarki sínu í umhverfisviku að vori þar sem stefnt er að því að fá grænfánann. Í umhverfisvikunni í ár afhenti Sigurlaug Arnardóttir, verkefnisstjóri Grænfánans hjá Landvernd, skólanum grænfánann í þriðja sinn og var hann dreginn að húni í kjölfarið.

Í umhverfisvikunni komu góðir gestir í heimsókn í skólann frá Lettlandi, Litháen og Finnlandi. Skólar frá löndunum fjórum taka þátt í Nordplus samstarfsverkefni þar sem þemað er vatn með áherslu á sjálfbærni og umhverfismál, en vatn tengir öll þessi lönd. Nemendahópur frá MS heimsótti Lettland í september 2023 í tengslum við sama verkefni og nú komu 7 nemendur úr hverjum skóla til Íslands til að vinna að þemaverkefnum um vatn. Verkefnin sem unnin eru í hverju landi eru aðskild þótt þemað sé alltaf það sama, þar sem nemendahóparnir eru ekki þeir sömu í hverri ferð. Í haust mun hópur nemenda í umhverfisnefnd MS heimsækja Litháen þar sem verkefnið heldur áfram.