Starfendarannsóknir

Starfendarannsóknir hófust í MS haustið 2005 og hafa þær síðan þá verið fastur hluti af skólastarfi í Menntaskólanum við Sund. Það hefur verið 10-25 manna hópur starfandi á þessu sviði á hverju ári síðan þá. Verkefnisstjóri starfendarannsókna í MS 2023-2024 er Sigrún Lilja Guðbjörnsdóttir, stærðfræðikennari, og ytri ráðgjafi hópsins er Ívar Rafn Jónsson, lektor við hug- og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri.

Í 18 ár hefur hópur starfsfólks í Menntaskólanum við Sund helgað sig starfendarannsóknum. Hópurinn samanstendur af starfsfólki skólans sem hefur það sameiginlega markmið að efla sig í starfi með þarfir síbreytilegs nemendahóps í huga. Starfendarannsóknir skapa því lærdómssamfélag innan skólans. Mörg af rannsóknarverkefnum starfendarannsóknarhópsins hafa snúið að því að finna leiðir til að hvetja nemendur til að auka virkni og ábyrgð sína á náminu. Önnur hafa unnið að því að fá nemendur til að virkja gagnrýna hugsun, samvinnu og samskipti. Lokamarkmið allra starfendarannsókna er að bæta nám nemenda, líðan og námsárangur þeirra.

Starfendarannsóknarhópurinn starfar undir leiðsögn verkefnisstjóra sem er greiddur af skólanum og hefur ávallt haft ytri ráðgjafa úr háskólasamfélaginu. Fyrstu 15 ár starfsins var Dr. Hafþór Guðjónsson ytri ráðgjafi hópsins, þá tók Guðrún Ragnarsdóttir við og núverandi ráðgjafi hópsins er Ívar Rafn Jónsson.

Starfendarannsóknir ýta undir starfsþróun kennara og efla kjark þeirra og þor til að þróa og umbreyta starfi sínu. Framhaldsskólinn hefur fengið sinn skerf verkefna á síðustu árum sem kennarar og stjórnendur hafa þurft að leysa í sameiningu. Starfendarannsóknir hafa verið virkur vettvangur til að takast á við þessi verkefni og orðið til þess að Menntaskólinn við Sund hefur leyst þau með þeim árangri sem raun ber vitni.

Starfendarannsóknahópurinn hittist einu sinni í mánuði. Á haustin kynna kennararnir verkefni sín og á næstu fundum greina þeir frá framgangi þeirra. Tvisvar á ári eru svo haldnar menntabúðir þar sem framfarir eða niðurstöður eru kynntar fyrir kennarahópnum. Þetta verður til þess að aðrir kennarar fá tækifæri til að kynnast verkefnum og spyrja spurninga sem hvetur þá áfram í því að prófa eða þróa nýja hluti í sinni kennslu.

Meðal viðfangsefna sem kennararnir í MS hafa fengist við er þróun þverfaglegra valáfanga, tilraunir með ýmsar kennsluaðferðir eins og t.d. samvinnunám, þróun námsmats, leiðsagnarnám, fjölbreytt erlent samstarf og samþættingarverkefni. Einnig hafa orðið til rannsóknarverkefni eins og gulur, rauður, grænn þar sem kannaðar voru aðrar leiðir til námsmats. Margir af þeim sem unnið hafa í starfendarannsóknum hafa einnig starfað náið með samstarfsfólki þar sem unnið er þverfaglega, starfið speglað og umræður verða til um lærdóm og þróun í starfi.

Hér til hliðar má nálgast ýmsar upplýsingar um starfendarannsóknir í MS svo sem skýrslur um starfið sem og kynningar á einstökum rannsóknum auk upplýsinga um þátttakendur í þessum rannsóknum.