LÍFF3DV05 - Dýr og vistkerfi

Í áfanganum eru þættir úr dýrafræði og vistfræði tvinnaðir saman. Grundvallarhugtök vistfræðinnar, svo sem stofn, stofnmælingar, samfélag, sess, samlífi og samkeppni, eru kynnt og skoðuð sérstaklega út frá dýrum í vistkerfum. Flokkun og þróun dýra eru rædd og sett í samhengi við stofnerfðafræði og Hardy-Weinberg jafnvægi. Í áfanganum verður farið í ýmsa þætti, bæði meðfædda og lærða, sem ráða hegðun dýra og hæfni til að lifa af og fjölga sér. Atferli dýra er skoðað með tilliti til búsvæðavals, samskiptamáta, stöðu í fæðuvef og fleiri þátta. Þá verða félagskerfi tiltekinna dýrategunda krufin. Aðferðir til að meta lýsitölur stofna (t.d. stofnstærð og þéttleika) eru prófaðar í verklegum æfingum. Að lokum er gerð athugun á atferli og hegðun dýra og reynt að átta sig á tilgangnum með hegðun þeirra.

Þekkingarviðmið
Nemandi skal hafa aflað sér þekkingar og skilnings á:

  • lykilhugtökum í vistfræði
  • flokkun og þróun dýra
  • stofnerfðafræði (erfðajafnvægi og þróun)
  • atferli dýra og stöðu í vistkerfi
  • mismunandi félagskerfum dýra
  • stofnum dýra og nokkrum aðferðum við að rannsaka þá

Leikniviðmið
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:

  • vinna með líffræðileg hugtök sem tengjast námsefninu
  • leita sér heimilda um afmarkað efni og nýta þær á viðeigandi hátt
  • setja fram og túlka gröf
  • beita aðferðum við mat á stofnstærð og stofnstærðarbreytingum
  • vinna með Hardy-Weinberg jöfnuna um erfðajafnvægi
  • sýna frumkvæði og sjálfstæð vinnubrögð
  • hanna rannsóknarverkefni og beita viðeigandi aðferðum við úrlausn
  • kynna niðurstöður, túlka þær á skýran hátt og rökstyðja í fræðilegu samhengi 

Hæfniviðmið
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:

  • meta upplýsingar á gagnrýninn hátt
  • miðla niðurstöðum verkefna af öryggi á fjölbreyttan hátt
  • geta tengt saman ólíka efnisþætti við úrlausn verkefna
  • útskýra, greina og draga ályktun af niðurstöðum verklegra æfinga
  • takast á við frekara nám í náttúrufræðum