Grænt bókhald

Menntaskólinn við Sund hefur haldið grænt bókhald frá árinu 2015. Vegna breytinga á húsnæði skólans á þessum tíma er samanburður milli ára varasamur þar sem árið 2015 var húsnæðið við Gnoðarvog undirlagt vegna byggingaframkvæmda og það ár var skólinn einnig með á leigu um 2000 fermetra húsnæði að Faxafeni 10 en inni í leigu þar var notkun á hita og rafmagni sem dæmi. Núverandi húsnæði var tekið í notkun 4. janúar 2016 og fyrstu raunhæfu samanburðartölurnar fást því með samanburði á árunum 2016 og 2017 þó svo að vissulega sé hægt að bera saman ákveðna þætti lengra aftur í tímann. Skólinn skilar grænu bókhaldi til umhverfisstofnunar í stöðluðu skjali en heldur sjálfur saman upplýsingum um magnþætti fleiri rekstrareininga.

Fjármálastjóri MS sér um skráningu í grænt bókahald skólans í samvinnu við rektor og umsjónarmann húseigna.

Áhrif af færslu á grænu bókhaldi MS

Farið er reglulega yfir þá umhverfisþætti sem teknir eru inn í grænt bókhald skólans og metið hvernig tekst til. Sífellt er unnið að endurbótum og eftirliti á grundvelli þessa og fundnar nýjar leiðir til þess að bæta árangurinn enn frekar. Frá því skólinn hóf fyrst að færa grænt bókhald hefur pappírsnotkun dregist saman yfir 60%, rafmagnsnotkun hefur dregist saman yfir 30% og heitavatnsnotkun um svipað hlutfall. Sorplosun hefur dregist saman yfir 10% og hlutfall flokkaðs úrgangs hefur farið úr tæpum 20% í um 80%. Þá hefur endurnýting hluta aukist og settir hafa verið upp skiptimarkaðir fata og bóka auk þess sem skólinn hefur gefið öðrum aðilum búnað sem ekki nýtist lengur í MS. Matarsóun hefur minnkað og leitast er við að kaupa eingöngu inn vörur frá aðilum sem skartað geta viðurkenndum umhverfismerkjum. Fræðsla í MS á sviði umhverfis- og loftslagsmála hefur líka stóraukist á þessum tíma. Umhverfismálin ná nú til allrar starfsemi skólans og færsla á grænu bókhaldi er í dag sjálfsagður en afmarkaður hluti af aðgerðaáætlun skólans í umhverfis- og loftslagsmálum.

Síðast uppfært: 02.02.2021