Menntaskólinn við Sund 40 ára

Hér að neðan er ræða fyrrum rektors skólans, Más Vilhjálmssonar sem hann flutti á sal skólans 1. október 2009 í tilefni afmælisins.

40 ár frá því að skólinn hóf störf

Ávarp rektors á sal skólans, Hálogalandi, 1. október 2009

Komið þið sæl og velkomin í Hálogaland. Í dag eru liðin 40 ár og 65 mínútur síðan skólinn hóf störf á þessum 274 degi ársins. Fyrsti skóladagurinn var nefnilega miðvikudagurinn 1. október 1969. Þá hófu um 200 nemendur nám í nýjum menntaskóla. Hófst kennsla klukkan 10 þann morgun. Skólinn var síðan settur formlega 18. október sama ár og fékk þá formlega nafnið Menntaskólinn við Tjörnina. Einari Magnússyni rektor MR var falið að stýra skólanum fyrsta starfsárið en eftir það var Björn Bjarnason skipaður sem rektor skólans og stýrði honum í 17 ár.

Árið 1969 var Dr. Gylfi Þ. Gíslason menntamálaráðherra. Í ræðu hans, við setningu skólans, sagði hann m.a. „...Menn gera sér í vaxandi mæli ljóst, að skólarnir eru einhverjar mikilvægustu stofnanir þjóðfélagsins. Ef þeir eru lélegir, verður þjóðfélagið ófullkomið. Ef þeir eru góðir, bætir það skilyrði til þess að lifað sé farsælu lífi.“ Í ræðunni segir hann einnig: „ Enginn dregur í efa gildi þekkingar, skynsemi og tækni. Öll vitum við hvað við eigum þessu öllu að þakka. Einmitt skólarnir eiga að vera eitt aðalheimkynni skynseminnar, þar er þekkingin varðveitt og aukin. Þeir eru undirstaða þess að tæknin eflist. Samt megum við ekki gleyma því, að maðurinn lifir til þess að njóta lífsins, og hann nýtur lífsins ekki til að nota skynsemi sína, ekki til þess að auka þekkingu sína, ekki til þess að njóta þæginda tækninnar. Maðurinn lifir til þess að njóta lífsins og hann nýtur lífsins því aðeins, að hann sé farsæll og góður, því aðeins að hann sé sífellt að þroskast og vitkast. Skynsemin ein færir ekki farsæld, þekkingin ein ekki þroska, þægindin ein ekki hamingju. Ef maðurinn beitir skynseminni ekki til góðs, ef hann vitkast ekki af þekkingu sinni, ef þægindin gera hann hóglífan, þá þroskast hann ekki, þá verður hann ekki farsæll. Við eigum heilanum svo mikið að þakka, að það vill nú orðið gleymast of oft, að það er líka hjarta í hverjum manni. Og göfugt hjarta er hverjum manni ekki minna virði en góður heili.“ Ef til vill er hvergi ríkari ástæða til þess að leggja áherslu á þetta en í skóla, og þá ekki síst nýjum skóla. Menn verða að vita, til hvers menn eru að læra. Það er ekki aðeins vegna þekkingarinnar sjálfrar, heldur til þess að geta gegnt hlutverki sínu í lífinu betur en ella.“

Þessi orð Gylfa eiga alveg eins vel við í dag og fyrir 40 árum.

En hvernig var árið 1969? Það er satt best að segja fróðleg lesning að lesa dagblöðin frá þessum tíma. Sumt sem þar stendur hefði alveg eins getað birst í blaði dagsins í dag. Annað minnir okkur á hve margt hefur breyst á undraskömmum tíma. Tökum dæmi: Árið 1969 var iðnaðarráðherra Jóhann Hafstein. Í Visi 1. október 1969 er lítil frétt þess efnis að iðnaðarráðherra hafi átt sérlega árangursríkan fund með Bretum um uppsetningu á olíuhreinsistöð á Íslandi. Enn í dag eru menn að vinna að því að setja á fót olíuhreinsistöð á Íslandi. Vonandi verður einnig svo eftir önnur 40 ár. Sumt viljum við síður að takist, umhverfisins vegna. En það er líka margt í fréttunum 1969 sem minnir okkur á hve langt er um liðið síðan skólinn okkar tók til starfa. Á þessum tíma var Harold Wilson forsætisráðherra Breta og í stjórnarandstöðu fyrir íhaldsmenn var Edward Heath. Bretar voru ekki í Evrópusambandinu og töldu að Evrópusambandið myndi græða miklu meira á inngöngu þeirra en þeir á inngöngu í sambandið. Austurblokkin í Evrópu stóð grá fyrir járnum gegn vesturveldunum, Austur Þýskaland, Sovétríkin og Kína sem þá var undir stjórn Mao Tse Tung voru með kommúnistískt skipulag og heimurinn var pólitískt svartur og hvítur þar sem á tókust kommúnistadjöflarnir og kapilista svínin eins og pólitískir andstæðingar áttu til að kalla hvorn annan.

20. júlí 1969 lenti Appollo 11 á tunglinu og fyrstu mennirnir (Amstrong og Aldrin) stigu fæti sínum á Tunglið og Concorde þota Breta og Frakka rauf hljóðmúrinn í fyrsta sinn þetta ár. Árið 1969 náðu stóru matvælafyrirtækin í Reykjavík samkomulagi um að hætta að svíða kindahausa yfir opnum olíueldi og nota þess í stað própangas. Þetta var mikið framfaraskref í umhverfismálum!

Sjónvarpstæki voru fá og svarthvít, það var ekkert internet, engar tölvur, enginn tölvupóstur og engar spjallrásir, ekkert You tube, Facebook, né pítsustaðir. Engin Hreyfing eða World Class. Ekkert vídeó, engir geisladiskar eða DVD. Engar ljósritunarvélar og engar tússtöflur í skólum. Dagblöðin sem komu út voru Vísir, Morgunblaðið, Alþýðublaðið, Tíminn og Þjóðviljinn. Samkomulag var gert við Bandaríkjamenn um merkingar á sígarettupökkum sem Rolf Johansen flutti inn og Reykholt í MT stóð undir nafni því þar var reykt í skólanum svo mikið að stundum var sem þoka væri yfir öllu. Melavöllurinn var þar sem Þjóðarbókhlaðan er og víða voru malarvegir í borginni. Við seldum Rússum trefla, gærur og gaffalbita (stundum skemmda) í skiptum fyrir olíu og við silgdum á Hull og Grimsby með ferskan fisk. Við skiptum við Pólverja á fiski og Prins Polo, sem var og er besta súkkulaðikexið í bænum. Á vegum Skipaútgerðar ríkisins silgdu Herjólfur, Herðubreið og Baldur. Landflutningar með flutningabílum þekktust varla. Frægasti íþróttamaður heims var Bob Beamon sem árið áður hafði sett ótrúlegt heimsmet í langstökki í Mexico 8,90m og sama ár varð Jime Hines fyrsti maðurinn til að hlaupa 100 metrana undir 10 sekúndum og fyrsta konan hljóp 100 metrana á 11 sekúndum sléttum. Árið 1969 var Hermann Gunnarsson atvinnumaður í fótbolta með Eisenstadt í Austurríki og í frétt á forsíðu Vísis 1. október 1969 kemur fram að hann þurfti að grenna sig um heil 7 kíló til að gleðja þjálfarann.

Það hefur því margt breyst á þessum árum, en eins og kom svo vel fram í ræðu Gylfa Þ. Gíslasonar fyrrum menntamálaráðherra erum við þó þau sömu í grunninn. Tilgangur menntunar er sá sami og okkur ber að muna að þrátt fyrir að við eigum heilanum svo mikið að þakka þá er hjarta í sérhverjum manni.

Skólinn hefur alla tíð haft skemmtilega nemendur og haft á að skipa afbragðsgóðu starfsfólki sem hefur verið trútt sínum vinnustað í gegnum áratugina. Nú eru að verða kynslóðaskipti í MS. Þeir sem hófu störf við MT fyrir margt löngu eru farnir á eftirlaun og nýtt fólk tekið við. Á þessu er þó undantekning: Halldór Hannesson stærðfræðikennari er einn þeirra sem hóf störf árið 1969 sem stundakennari við MT þó svo að hann hafi síðar farið til annarra starfa. Hann er því einn af þeim kraftmiklu frumkvöðlum sem ýttu skólanum okkar af stað fyrir 40 árum. Skólinn allur ber enn svipmót þessara frumkvöðla. Halldór komdu hér upp til mín!

Ágætu MS –ingar, 40 ára afmæli skólans verður fagnað í allan vetur. Við ætlum að gera okkur dagamun af og til, bæði líta til baka til fortíðar, njóta nútíðarinnar og horfa fram á veginn. Í Þrísteini er búið að setja upp nokkrar myndir frá upphafi skólans. Hér á sviðinu er nýr hátíðarfáni skólans og á fánastönginni framan við skólann blaktir nú nýr skólafáni. Hér á eftir verður á eftir boðið upp á grillaðar pulsur fyrir þá sem það vilja og síðan eru líka grillaðar pylsur sem vilja þær frekar. Til hamingju með daginn og skólann okkar. Verði ykkur að góðu.