Sjálfsmatsstefna

Hver framhaldsskóli skal með kerfisbundnum hætti meta árangur og gæði skólastarfsins. Í lögum um framhaldsskóla (nr. 92/2008) er það markmið mats og eftirlits með gæðum starfs í framhaldsskólum að:

  • veita upplýsingar um skólastarf, árangur þess og þróun til fræðsluyfirvalda, starfsfólks framhaldsskóla, viðtökuskóla, atvinnulífs, foreldra og nemenda,
  • starfsemi skóla sé í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og aðalnámskrár framhaldsskóla,
  • auka gæði náms og skólastarfs og stuðla að umbótum,
  • tryggja að réttindi nemenda séu virt og að þeir fái þá þjónustu sem þeir eiga rétt á samkvæmt lögum.

Innra mat á framhaldsskóla fer fram í skólanum sjálfum og snýst um að meta bæði árangur og gæði skólastarfsins á kerfisbundinn hátt með virkri þátttöku starfsmanna, nemenda og foreldra. Í MS er árlega starfandi verkefnisstjóri með sjálfsmati og sjálfsmatshópur skipaður, konrektor, sjálfsmatsstjóra, kennara, nemendum og fulltrúa forráðmanna. Árlega skilar skólinn sjálfsmatsskýrslu til mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Ytra mat á framhaldsskólum er á höndum Mennta og menningarmálaráðuneytis. Í ytra mati er lagt mat á starfsemi skólans með hliðsjón af gildandi lögum, reglugerðum og aðalnámskrám lög nr. 92/2008. Er það meðal annars gert með því að skoða fyrirliggjandi gögn um starfsemi skóla, heimsóknum úttektaraðila og viðtölum við nemendur, starfsfólk skóla og foreldra. Hver framhaldsskóli er metinn á fimm ára fresti skv. 42. gr. fyrrnefndra laga.

Stefna MS í sjálfsmati byggir á ofangreindum lögum að allt skólastarf skuli metið með reglulegum hætti á grundvelli markmiða. Markmið matsins er að draga fram sterkar og veikar hliðar skólastarfsins og skapa grundvöll til úrbóta. Þannig leitast skólinn við að læra af reynslu sinni. Markmið og leiðir í sjálfsmati skulu endurskoðuð reglulega og árlega skulu sett fram deilimarkmið varðandi stefnu skólans. Árlega setur sjálfmatshópur fram sjálfsmatsáætlun til þriggja ára, aðgerðaráætlun um sjálfsmat og tímasetta aðgerðaráætlun um sjálfsmat. Allar áætlanir má sjá hér á vefnum til hliðar.

Síðast uppfært: 25.11.2020