Menntaskólinn við Sund hlaut í dag 2.400.000 króna styrk úr Sprotasjóði fyrir verkefnið Þróun nemendaþjónustu með farsæld að leiðarljósi.
Verkefnið felur í sér þróun á nemendaþjónustu skólans með það að markmiði að efla stuðning við nemendur, stuðla að forvörnum og auka upplýsingaflæði til þeirra. Standa vonir til að verkefnið muni skila sér í aukinni farsæld allra nemenda með því að kynna öll og þjálfa í leiðum til að takast á við erfiðar aðstæður og valdefla þau til þess að leita sér aðstoðar þegar þörf er á. Verkefnið er leitt af náms- og starfsráðgjöfum skólans í samstarfi við ýmsa aðila innan skólans og er ætlað að stuðla að frekara trausti nemenda í garð starfsmanna svo öll leiti sér stuðnings þegar þörf er á. Fram hefur komið í nýlegum rannsóknum að einungis lítið brot nemenda leitar til starfsmanna skólanna eftir aðstoð, ungmennin viti ekki hvert sé hægt að leita eða nýti ekki þau úrræði sem eru í boði.
Heiti verkefnisins hér innanhúss er Krossgötur og er byggt upp í hugmyndafræði hópráðgjafar og sprottið upp úr þörf fyrir aukinn stuðning við nemendur. Með því viljum við styðja nemendur sérstaklega vel á tímamótum, þegar þeir standa á krossgötum í lífi sínu. Annars vegar á mótum grunn- og framhaldsskóla og hins vegar á mótum framhaldsskóla og háskólanáms eða atvinnulífs.
Á myndinni má sjá Ásmund Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, Fjólu Dögg Blomsterberg, náms- og starfsráðgjafa við MS og Helgu Sigríði Þórsdóttur, rektor skólans.