Opnun á mataraðstöðu fyrir nemendur í Holti

Miðvikudaginn 16. september mun verða opnuð mataraðstaða fyrir nemendur MS í Holti. Salurinn verður opinn frá klukkan 10:15 til 13:00 alla virka daga. Salnum er skipt upp í hólf til samræmis við núverandi hólfaskiptingu skólans sem sett var vegna sóttvarna. Afar mikilvægt er að nemendur virði að fullu þær reglur sem gilda í salnum og að þeir virði reglur um umgengi, hreinlæti, fjarlægðarmörk og hólfaskiptingu. Þá er bent á að þó svo að það sé ekki grímuskylda innan hvers hólfs þá er grímuskylda þegar farið er út úr hólfinu að sækja mat. hver og einn sem það gerir verður sjálfur að útvega sér grímu.

Reglur í Holti eru eftirfarandi:

Sóttvarnarhólf

Holti er skipt upp í fjögur hólf í samræmi við gildandi sóttvarnarskiptingu í MS. Í hverju hólfi er ákveðinn fjöldi borða og stóla og ekki er heimilt að færa borð eða stóla innan eða á milli hólfa. Óheimilt er að færa sig á milli sóttvarnarhólfa í Holti. Aðgengi í hvert hólf í Holti er frá hverju sóttvarnarhólfi í MS (sjá kort).

Grímuskylda

Þegar farið er úr hólfi til að sækja þjónustu í mötuneytið er grímuskylda (sjá kort yfir svæði þar sem þarf að vera með grímu). Nemendur verða að vera með eigin grímur.

Fjarlægðarmörk

Uppröðun í Holti gerir ráð fyrir að fjarlægðarmörk séu virt í hvívetna bæði innan hvers hólfs sem og við afgreiðslu.

Umgengni og hreinlæti

Hver og einn verður að gæta ítrasta hreinlætis og ganga frá eftir sig. Flokkunartunnur eru í hverju hólfi og vagn til að láta frá sér leirtau og glös. Holt er sótthreinsað fyrir opnun hvern dag. Sótthreinsistandar eru við inngang að hverju hólfi og spritt og tuskur eru í hverju hólfi.

Prentaðstaða fyrir nemendur

Prentaðstaða fyrir nemendur verður áfram í Holti og aðgangur að henni er áfram sá sami (sjá kort).

Brot á umgengisreglum í Holti

Forsenda þess að hægt sé að hafa mataraðstöðu opna í MS er að sóttvarnarreglur MS séu virtar að fullu. Komi til brota á þessum reglum verður aðstöðunni lokað samstundis til þess að draga úr líkum á smiti. Sérstakur öryggisvörður á vegum MS mun aðstoða og leiðbeina fólki að halda reglur. Hann hefur skýra heimild til þess að vísa fólki út úr salnum komi til brota og ber þá að tilkynna skólanum um brot viðkomandi.

Kort af hólfaskiptingu í Holti