Mikilvægi seiglu í námi og starfi

Það hefur oft verið sagt að Íslendingar séu hugmyndaríkir,  óhræddir við að takast á við verkefnin og sérlega góðir í átaksverkefnum. Þannig tókum við á Covid 19 ástandinu síðastliðið vor og þá var samtakamátturinn mikill. Það má alveg segja að við höfum unnið þá orustu en stríðinu var ekki lokið og orusturnar urðu fleiri en ein og þær bíða okkar eflaust fleiri. Við þurfum því að vera tilbúin í stríð en ekki orustu og ef við eigum að hafa betur á þeim vettvangi þurfum við að sýna úthald og seiglu. Við þurfum að vera viðbúin því að verða þreytt og leið og að árangri gærdagsins verði kippt frá okkur án nokkurs fyrirvara. Við megum ekki láta vonbrigði við bakslagi slá okkur út af laginu og vera tilbúin í að halda áfram, sama hvað áföllin eru svekkjandi. 

Nemendur búa við afar sérkennilegt námsumhverfi þar sem reynir verulega á þá á ýmsa vegu. Við verðum að muna að í þessu ástandi er meiri ábyrgð sett á nemendur. Það reynir verulega á að þeir sýni ábyrgð á eigin námi. 

Skólalífið er ekki eins og við kjósum. Nemendur fá ekki alla þá þjónustu sem við viljum veita þeim og frábærir kennarar MS hafa ekki sömu tækifæri og leiðir og áður til þess að hrífa nemendur með sér þegar fjallað er um undraveröld námsins. Í svona ástandi ríður á að sýna hugmyndaauðgi og seiglu og bæði starfsfólk og nemendur verða ætíð að muna til hvers við erum í MS. Við sem störfum í MS þurfum að standa saman og gæta að þeim sem hætt er við að missi fótanna í þessu ástandi.

Sóttvarnir á tímum Covid 19 eru flóknar. Skólinn hefur búið til ákveðið umhverfi og skipulag til að minnka sem mest líkur á smiti en hver og einn verður að taka ábyrgðina og huga að eigin sóttvörnum. Munið því að gæta að fjarlægðarmörkum og virðið hólfaskiptingu í MS. Þvoið hendur, sprittið og notið alltaf grímu  í skólanum.

rektor