Dagur íslenskrar tungu 2019

Gerist 16.11.2019

Degi íslenskrar tungu, fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar, verður fagnað í 24. sinn laugardaginn 16. nóvember nk., en hann hefur fest sig í sessi sem sérstakur hátíðisdagur íslenskunnar. Þá eru sem flestir hvattir til að nota tækifærið til þess að minna á mikilvægi þjóðtungunnar t.d. með því að skipuleggja samkomur, halda kynningar eða veita viðurkenningar.

Minnt er á að dagur íslenskrar tungu er opinber fánadagur og því mælst til þess að opinberar stofnanir flaggi íslenska fánanum í tilefni dagsins.

Þar sem hátíðina ber upp á laugardag í ár verður sameiginleg dagskrá mennta- og menningarmálaráðuneytis og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum með nokkuð öðru sniði en venjulega.

íslenskan verður sem fyrr í öndvegi en nú verður hún einnig í sviðsljósinu. Auk þess að beina kastljósinu að skáldskap Jónasar Hallgrímssonar og veita verðlaun og viðurkenningar þeim sem hafa unnið íslenskri tungu sérstakt gagn, verður efnt tillistviðburðar. Móðurmálið og staða þess á tímum sívaxandi áhrifa frá ensku verður túlkuð af fulltrúum hinna ýmsu listgreina um leið og minnt verður á ríkidæmi íslenskunnar og óravíddir orðaforða ns. Hátíðin verður að þessu sinni haldin í Gamla bíói í Reykjavík og hefst kl. 15.30.

Dagskrá hátíðarinnar verður fjölbreytt og nokkuð þétt en markmið hennar er ekki síst að hreyfa við þeim sem hafa helst áhrif á ungt fólk í landinu og hvetja þá til að nota íslensku á skapandi og skemmtilegan máta við miðlun efnis og upplýsinga.

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum annast ýmis verkefni í tengslum við viðburði á degi íslenskrar tungu og geta þeir sem vilja kynna viðburði sína sent ábendingar um slíkt á netfangið arnastofnun@arnastofnun.is. Almennar upplýsingar um dag íslenskrar tungu má finna á heimasíðu mennta- og menningarmálaráðuneytis og á síðunni Dagur íslenskrar tungu á Facebook.

Nánari upplýsingar veita Eva María Jónsdóttir (eva.maria.jonsdottir@arnastofnun.is) og Helga Guðrún Johnson (helga.gudrun.johnson@mrn.is).