Afmæli barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna - Alþjóðadagur barna

Gerist 20.11.2019
Þann 15. mars 2016 var samþykkt á Alþingi að 20. nóvember ár hvert skuli helgaður fræðslu um mannréttindi barna, en þá er afmælisdagur Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og Alþjóðadagur barna. Barnaheillum – Save the Children á Íslandi var falið af innanríkisráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra að sjá um framkvæmd dagsins.
Við í MS höldum þennan dag hátíðlegan í skólanum þann 20. nóvember næstkomandi.

Umboðsmaður barna stendur fyrir barnaþingi 21.–22. nóvember og eru skólar hvattir til að halda sín eigin barnaþing af því tilefni þann 20. nóvember og gefa nemendum tækifæri til að koma skoðunum sínum og hugmyndum á framfæri.
Barnasáttmálinn sem er 30 ára í ár var samþykktur á allsherjarþingi SÞ þennan dag árið 1989. Hann var undirritaður á Alþingi árið 1990 og staðfestur fyrir Íslands hönd 28. október 1992. Sáttmálinn var lögfestur á Alþingi 20. febrúar 2013.

Barnasáttmálinn er útbreiddasti mannréttindasamningur heims og kveður á um þau réttindi sem öll börn eiga að njóta. Lög um leik-, grunn- og framhaldsskóla, aðalnámskrár skólastiganna og grunnþættir menntunar eiga jafnframt að tryggja börnum þessi réttindi og vera samhljóma barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
Öll börn, óháð stöðu þeirra, skulu njóta þeirra mannréttinda sem kveðið er á um í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og ekki má mismuna börnum hvað þau réttindi varðar.
Hugmyndir að verkefnum getur þú m.a. fundið hér: https://www.barnaheill.is/is/starfidokkar/samstarfsverkefni/dagur-mannrettinda-barna