Stefna skólans gegn einelti

Menntaskólinn við Sund líður ekki einelti á vinnustað. Reynt er með öllum tiltækum ráðum að stöðva slíka hegðun þegar hún kemur upp. Skólinn leggur áherslu á í stefnumótun sinni og aðgerðaáætlun að draga úr líkum á því að aðstæður þar sem einelti þrífst séu í skólanum. Komi upp eineltismál skal brugðist strax við.

Um þjóðarsáttmála gegn einelti

Skilgreining á einelti

Samkvæmt reglugerð 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum er einelti síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta. 

Birtingarmyndir eineltis geta verið margs konar:

  •  Félagslegt einelti t.d. útilokun og baktal.
  • Andlegt einelti t.d. hótanir, stríðni og niðrandi athugasemdir, skriflegar og/eða munnlegar. Móðgandi símtöl, lítilsvirðandi texti í tölvupósti eða öðrum skriflegum sendingum.
  • Líkamlegt einelti t.d. líkamsmeiðingar og annað ofbeldi.
  • Kynferðislegt einelti t.d. kynferðisleg áreitni, bæði líkamleg og andleg. Efnislegt einelti t.d. skemmdir á eigum svo sem fatnaði.
  • Rafrænt einelti t.d. á spjallsíðum og í spjallforritum.

Fyrirbyggjandi aðgerðir og forvarnir

  1.  Í skólanum er lögð áhersla á heilbrigðan lífsstíl þar sem einelti á ekki að þrífast.
  2. Starfsfólk og nemendur vita að einelti er ekki liðið í skólanumog þekkja eineltisáætlunina sem er aðgengileg öllum á heimasíðu skólans.
  3. Samstarf er við foreldraráð, félagsmálafulltrúa, náms- og starfsráðgjafa og forvarnarfulltrúa skólans.
  4. Stjórnendur bera ekki aðeins ábyrgð á störfum starfsfólks heldur einnig á því að grundvallarreglur samskipta í skólanum séu virtar.

Viðbragðsáætlun

 Ef grunur er um einelti skal sá sem fær vitneskju um málið hafa samband við einhvern eftirtalinna: stjórnendur skólans, kennara eða náms- og starfsráðgjafa.  Allar ábendingar eru kannaðar til hlítar og unnið með þær sem trúnaðarmál. Endurskoða skal þessa viðbragsáætlun um einelti reglulega.

Viðurlög

Viðurlög við einelti eru samkvæmt skólareglum og reglum um ríkisstarfsmenn. Gerandi eineltis verður látinn axla ábyrgð og getur fengið áminningu, verið fluttur til í áfanga/starfi eða verið vikið úr skóla/sagt upp.

Síðast uppfært: 13.06.2022