Sjálfsmatsstefna

Stefna MS ísjálfsmati byggir á þeirri skoðun að allt starf í skólanum sé breytingum háð. Skólastarfið skal metið reglulega á grundvelli markmiða skólans til að draga fram sterkar og veikar hliðar þess og skapa grundvöll til úrbóta. Þannig leitast skólinn við að læra af reynslu sinni. Markmið og leiðir í sjálfsmati skulu endurskoðuð reglulega og árlega skulu sett fram deilimarkmið varðandi stefnu skólans. 

Sjálfsmatsáætlun MS til þriggja ára
2018 til 2021

Inngangur
Sjálfsmatsáætlun MS byggir á skólanámskrá og sjálfsmatsstefnu Menntaskólans við Sund. Hún er birt á heimasíðu skólans. Verkefnisstjóri um sjálfsmat er ráðinn til eins árs í senn. Starfshópur um sjálfsmat skóla stýrir sjálfsmatsvinnunni en í honum eru verkefnisstjóri, konrektor, skrifstofustjóri, fjórir fulltrúar kennara og fjórir fulltrúar nemenda. Sjálfsmatsáætlunin er endurskoðuð árlega.

Aðgerðaáætlun
Skólinn setur sér aðgerðaáætlun um helstu markmið á hverju skólaári og til hvaða aðgerða eigi að grípa til að ná þeim. Aðgerðaáætlun er kynnt á skólafundi eða starfsmannafundi í upphafi haustannar og birt á heimasíðu skólans.

Sjálfsmatsáætlun

Á sviði sjálfsmats er árlega sett fram aðgerðaáætlun þar sem koma fram markmið sjálfsmats og aðgerðir tilgreindar sem nota á til þess að ná þeim, bæði árlegar aðgerðir og sérstakar aðgerðir sem lögð er áhersla á hverju sinni. Sjálfsmatsáætlun er birt á heimasíðu skólans.

Nemendakönnun
Könnun á gæðum náms og kennslu verður lögð fyrir alla nemendur skólans á Námsnetinu í lok haust-, vetrar og vorannar. Niðurstöður hvers kennara og samanburður við heildina eru birtar kennurum á Námsnetinu eftir annarlok. Heildarniðurstöður eru kynntar innan skólans.

Eftirlit með brotthvarfi og mætingu

Skólinn vinnur eftir aðgerðaráætlun MS gegn brotthvarfi. Mætingarstjóri tryggir stöðugt upplýsingaflæði til nemenda varðandi mætingu og kennslustjóri vinnur skýrslu um brotthvarf nemenda frá skólanum á ári hverju. Haft er samband við nemendur sem segja sig úr námi og upplýsinga aflað um ástæður þess. 

Starfsmannaviðtöl rektors

Rektor tekur starfsmannaviðtöl á hverri vorönn við alla nýja starfsmenn. Aðrir starfsmenn geta pantað starfsmannaviðtöl hjá rektor á vetrarönn 2018-2021.

Starfsmannakönnun
Á vorönn er árleg könnun lögð fyrir alla starfsmenn skólans. Þar er spurt um líðan í starfi, starfsskilyrði og afstöðu til málefna sem efst eru á baugi innan faga og í stefnumótun skólastarfsins hverju sinni. Könnunin er tvískipt, fyrst spurningar fyrir alla starfsmenn og síðan spurningar sem eingöngu eru ætlaðar kennurum. Niðurstöður könnunarinnar eru kynntar á starfsdögum í upphafi næsta skólaárs. Tekið er mið af niðurstöðum þessarar könnunar í aðgerðaáætlun skólaársins.

Mat á stjórnendum MS
Á vorönn er árleg könnun lögð fyrir starfsmenn MS þar sem þeim gefst kostur á að meta gæði stjórnunar í skólanum. Lagt er mat á störf rektors, konrektors, kennslustjóra og námsbrauta- og námskrárstjóra og niðurstöður sendar til viðkomandi stjórnanda.

Námsárangur nemenda
Í lok hverrar annar eru teknar saman niðurstöður (meðaltal og dreifing) um námsárangur nemenda í hverjum námsáfanga. Niðurstöður eru ræddar á fagfundum í upphafi vetrarannar og í upphafi og lok vorannar. Þar er farið yfir niðurstöðurnar í greininni og samanburður gerður við fyrri ár og skyldar greinar. Þá er rætt hverju hægt er að breyta til að auka námsvirkni nemenda og ábyrgð þeirra á námi sínu og hverju þarf að breyta til að bæta námsárangur þeirra nemenda sem verst eru staddir í námsgreininni.

Starfendarannsókn
Starfshópur um rannsókn á eigin starfi hefur að markmiði að gefa starfsfólki tækifæri til að bæta sig í starfi og þróa starfshætti sína með því að gera starfendarannsókn, ígrunda starf sitt og fara í jafningjamat. Hver starfsmaður skoðar afmarkaðan þátt í starfi sínu, safnar gögnum með ýmsum aðferðum, heldur dagbók og fundar með hópnum. Starfendarannsóknarhópur hóf starf í MS haustið 2005. Hópurinn hefur utanaðkomandi faglegan ráðgjafa.

Fundir sjálfsmatshóps með tenglum nemenda
Sjálfsmatshópurinn heldur árlega fund með tenglum nemenda skólans sem valdir eru af nemendum námsbrauta og námslína skólans. Á tenglafundum er rætt um hugmyndir um það sem má bæta í skólastarfinu og í skólanum yfirleitt. Stjórnendur fara yfir hugmyndirnar og rektor setur fram lista yfir viðbrögð skólans við þeim hugmyndum. Því plaggi er síðan dreift til tenglanna ásamt fundargerð fundarins.

Fundir stjórnenda og kennara faggreina
Stjórnendur halda fundi með kennurum í völdum faggreinum á haust- og vetrarönn 2018 - 2021. Á þessum fundum er rætt við kennara um starfið í deildinni og hvernig tekst að aðlaga starfið að nýrri námskrá, nýju þriggja anna kerfi og kennslufræði um virkni og ábyrgð nemenda á námi sínu. Markmiðið er að efla tengsl stjórnenda og kennara, meta innleiðingu nýrra faglegra breytinga og ræða styrkleika og veikleika í skólastarfinu.

Starfshópar
Innan MS eru starfandi ýmsir starfshópar sem vinna að því að bæta skólastarfið. Verkefnisstjóri stýrir starfi hvers hóps og þar eru fulltrúar kennara og annarra starfsmanna og í sumum þeirra einnig fulltrúar nemenda. Skólaárið 2018-2019 eru starfandi eftirfarandi hópar: sjálfsmatshópur, starfendarannsóknarhópur, þróunarhópur um leiðsagnarnám, öryggisnefnd, samstarfsnefnd og vinnumatsnefnd.

Hugmyndabanki
Hugmyndabanki var stofnaður á Námsnetinu 2013 þar sem nemendur og starfsmenn geta sett fram hugmyndir um það sem má bæta í skólastarfinu. Einnig er hugmyndakassi í einu af lokuðu hólfunum í U-inu á 2. hæð. Hugmyndabankinn er kynntur með tölvupósti til nemenda og á fundi með tenglum nemenda.

Rýnihópur nemenda um nýja námskrá
Á haustönn 2015 var stofnaður rýnihópur nemenda á fyrsta námsári um nýja skólanámskrá MS. Á síðustu tveimur skólaárum hefur starf rýnihópsins verið eflt og tenglar námsbrauta og námslína á 1. til 3. námsári fengnir til að velja sína fulltrúa í rýnihópinn. Markmiðið er að skapa umræðuvettvang við nemendur um nýja námskrá, nýtt þriggja anna kerfi og skipulag valdagsins og gefa nemendum tækifæri til að láta í ljós skoðun sína á skipulagi og innihaldi nýrrar Ratsjár. Áfram verður unnið að því að efla starf rýnihóps nemenda.

Sjálfsmatsáætlunin er endurskoðuð árlega.

Meginreglur mats

Innra mat byggist á markmiðum skólans, reglum hans og stefnu. 

Innra mat byggist á opinskárri umræðu og almennri þátttöku starfsmanna og nemenda. 

Innra mat byggist á reynslu starfsmanna og nemenda og hvers konar gögnum skólans. 

Gæta skal fyllsta trúnaðar um allar upplýsingar er varða einstaklinga. 

Eftir föngum skal leita álits aðila utan skólans, svo sem foreldra og forráðamanna , á starfsemi hans. 

Eftir atvikum skal leita álits óháðra sérfræðinga, stofnana og annarra skóla til að treysta mat og matsaðferðir. 

Hluti af innra mati verði tiltekin tölfræði úr gögnumskólans sem þjóni sem árangursvísar. 

Þeir sem málið varðar skulu eiga kost á að segja álitsitt á matsaðferðum og niðurstöðum. 

Undirbúningur mats og matsferli skal skipulagt af starfshópi innan skólans. 

Starfshópurinn gerir tillögur til stjórnenda um aðgerðir á grundvelli niðurstaðna mats.

Starfshópar undirbúa og fylgja eftir ákvörðunum um aðgerðir sem teknar eru á grundvelli mats. 

Birta skal áætlun þar sem kynntar eru aðgerðir til að bæta einstaka þætti skólastarfsins. 

Skólinn skal birta og kynna helstu niðurstöður sjálfsmats innan skólans sem utan. 

Viðfangsefni mats

  • Stefna og markmið skólans. 
  • Nám, kennsla og námsmat. 
  • Nýting mannafla, fjármagns og aðstöðu. 
  • Stjórnun, samskipti og starfsandi. 
  • Árangur og aðbúnaður nemenda. 
  • Árangur og aðbúnaður kennara og annarra starfsmanna. 
  • Tengsl skóla og samfélags. 
  • Fagleg og félagsleg aðstaða nemenda og starfsmanna. 
  • Annað.

Skipulag mats

Skipulagt sjálfsmat tekur mið af heildarhagsmunum skólasamfélagsins og er skipulagt af starfshópi. Í þeim hópi skal vera stjórnandi, fulltrúar nemenda og starfsmanna skólans. Starfshópur þessi setur árlega fram áætlun um sjálfsmat og hefur umsjón með matsstarfinu.Hann kynnir í heild niðurstöður matsins, gerir áætlun um úrbætur og tekur saman skýrslu um starf sitt. Á hverju ári skal leggja áherslu á eitt meginviðfangsefni mats og taka saman tölfræði eða árangursvísa.

Síðast uppfært: 04.10.2018