Jafnréttisstefna MS

Jafnréttisáætlun Menntaskólans við Sund er mótuð í samræmi við lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150 frá 2020. Markmið áætlunarinnar er að gæta þess að nemendum og starfsfólki skólans sé ekki mismunað eftir uppruna, þjóðerni, litarhætti,  kynferði, kynhneigð,  fötlun, fjárhag,  tungu, trúarbrögðum, stjórnmálaskoðunum. Stefna skólans er að vinna að jafnræði og jafnrétti allra minnihlutahópa þannig að þeir hafi sem jöfnust tækifæri. Markmiðið er að stuðla að jafnrétti kynjanna í skólanum, jöfnum tækifærum, áhrifum og virðingu karla, kvenna og fólks með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá bæði meðal starfsmanna og nemenda skólans.
Grunngildi Menntaskólans við Sund eru virðing, jafnrétti, ábyrgð og heiðarleiki. Gildin skulu endurspeglast í öllu starfi skólans og samskiptum manna á milli.

Jafnréttisnefnd og jafnréttisfulltrúi

Jafnréttisfulltrúi MS er ráðinn til eins árs í senn. Jafnréttisfulltrúi vinnur að jafnréttisstefnu og aðgerðaáætlun skólans um jafnréttismál í samvinnu við jafnréttisnefnd og stjórn skólans. Jafnréttisstefnan lýtur bæði að starfsfólki og nemendum. Jafnréttisfulltrúi stuðlar að framkvæmd aðgerðaáætlunar og vinnur sérstaklega með fulltrúum nemenda, femínistafélaginu, ritnefnd og kosningastjóra. Jafnréttisfulltrúi sér um gæðamat á útgáfuefni á vegum Skólafélags MS og stuðlar að því að jafnrétti kynjanna sé gætt í félagslífi nemenda.

Skólameistari skipar í jafnréttisnefnd í samræmi við 28. grein jafnréttislaga. Jafnréttisnefnd skipa jafnréttisfulltrúi, einn fulltrúi stjórnenda, tveir fulltrúar kennara og 2 fulltrúar nemenda. Jafnréttisnefnd og jafnréttisfulltrúi eru sameiginlega ábyrg fyrir eftirfarandi verkefnum: 

  • Endurskoðun á jafnréttisáætlun skólans. 
  •  Gæta þess að jafnréttisáætlun sé framfylgt.
  • Gera aðgerðaáætlun um hvernig rétta skuli hlut kynja þar sem það á við. 
  • Fylgjast með framgangi jafnréttisverkefna innan skólans. 
  • Hafa eftirlit með að jafnréttislögum sé framfylgt. 
  • Standa að fræðslu um jafnréttismál.
  • Fylgja eftir kvörtunum og kærumálum sem varða jafnréttismál skólans og koma þeim í réttan farveg.  

 

Síðast uppfært: 15.06.2022