Verkferli í MS þegar unnið er að lausn ágreiningsmála

Hryggjarstykkið í skólastarfi, góðu sem slæmu, eru samskipti. Það sem einkennir gott skólastarf eru góð samskipti sem einkennast af gagnkvæmri virðingu og opnum tjáskiptum. Hins vegar er það hið eðlilegasta mál að upp komi hnökrar í samskiptum, ágreiningur rísi og mismunandi skoðanir séu uppi um leiðir, lausnir og vandamál. Það er hlutverk stjórnenda skóla að sjá til þess að þegar upp koma vandamál að farið sé með mál á faglegan hátt og í samræmi við reglur, lög og góða stjórnsýslu.

Ágreiningur rís

 Það er allur gangur á hvernig umkvartanir eru bornar fram. Þær geta komið fram í skólastofu, á göngunum, utan skóla sem og á skrifstofum  stjórnenda. Yfirgnæfandi hluti þeirra eru þess eðlis að þær er hægt að leysa með góðu samtali án þess að það þurfi að farið sé með þær í samræmi við verklag stjórnsýslulaga. Þegar horft er til þess verklags þá er viðkvæmasti og vandmeðfarnasti hlutinn í verklaginu upphaf máls. Það þarf alltaf að meta hvort umkvörtun er það alvarleg að með hana þurfi að fara í samræmi við ákvæðistjórnsýslulaga eða hvort hún sé amennari eðlis. Almennar umkvartanir sem settar eru fram í framhjáhlaupi, jafnvel nafnlaust, t.d. um að kennari sé óréttlátur, óskipulagður, strangur eða leiðinlegur eru ekki þess eðlis þó þær geti leitt til þess að rætt sé við viðkomandi og hann upplýstur um málið og jafnvel beðinn um að taka tillit tilþess sem kvörtun berst yfir. 

Meðferð alvarlegra mála

Ef umkvörtun er þess eðlis að metið er að hún eigi sér stoð og það sem kvartað er yfir sé alvarlegt þá þarf að taka á málinu með formlegum hætti.  Sá sem ber fram kvörtunina er þá beðinn um að setja hana fram með skriflegum hætti. Hvers vegna óskað er eftir því er síðan útskýrt fyrir viðkomandi og hann er beðinn um að vera eins nákvæmur og hann getur í að lýsa málsatvikum. Mjög oft verðurþessi ósk skólans til þess að sá sem kvartar orðar hlutina á annan hátt en hann gerði þegar hann bar fram kvörtunina fram í upphafi. Mikilvægt er að alvarlegar umkvartanir séu bornar fram skriflega því orðalag skiptir máli þegar mál fara í vinnslu. Oft er það þannig að þegar viðkomandi er beðinn um að lýsa málsatvikum kemst skipulag á hugsunina og hlutirnir eru þá stundum orðaðir á annan hátt en þeir eru sagðir í upphafi.  Þetta verklag er viðhaft hvort sem nemandi eða starfsmaður ber fram kvörtun. 

Þegar mál eru það alvarleg að þau snerta brot á reglum eða lögum er það þannig að sá sem ber fram skriflega kvörtun þarf að standa fyrir sínu máli og sá sem kvartað er yfir fær þá þau gögn sem lögð erufram og getur þá brugðist við því sem þar kemur fram. Með þessu fyrirkomulagi njóta báðir aðilar máls ákveðna vernd sem felst í formlegri málsmeðferð. Mál sem fara í formlegt ferli í MS eru til dæmis endurtekin brot á reglum skólans, eineltismál, kynferðisleg áreitni og slík brot, mál sem snerta brot í starfi og önnur mál sem eiga sérstaklega við opinbera starfsmenn.

Þegar mál eru þess eðlis að með þau þarf að fara í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga er það rektor skólans sem fer með málið fyrir hönd skólans og hann einn sér um að svara fyrir og fylgja málinu eftir. Málsmeðferð og málshraði í þeim málum er í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga.

Mál sem snerta nemendur 

Ef nemandi/nemendur sem eru aðilar máls eru ekki sjálfráða eru foreldrar/forráðamenn upplýstir um öll málsatvik og samskipti skólans vegna þeirra nemenda fara fram í gegnum samskipti við forráðamenn eins og þeir eru skráðir í Þjóðskrá hverju sinni.

Ef nemandi er orðinn sjálfráða þegar mál kemur upp verða samskiptin á milli skóla og nemandans sjálfs. Foreldrar fá ekki upplýsingar um málsatvik nema fyrir liggi formlegt samþykki viðkomandi nemanda að svo verði.

Skólaráð fjallar um beiðnir nemenda um undanþágur frá reglum skólans. Hér er m.a. að ræða beiðnir um undanþágur frá reglum um námsframvindu, undanþágur frá námskrá skólans, undanþágur frá reglum um ástundun o.fl. Þegar skólaráð hefur fjallað um þessi mál er það rektor skólans, og stundum kennslustjóri í umboði rektors, sem í raun tekur ákvörðun um að verða við beiðni um undanþágu eða ekki

Málshraði

Mál, sem ekki leysast með samtali milli deiluaðila og eru sett í formlegt ferli í skólanum, fara í ferli þar sem tímaramminn í málsmeðferðinni er í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga og þeirra leiðbeininga sem mennta- og menningarmálaráðuneytið setur sínum undirstofnunum. 

Upplýsingaöflun og ákvörðun skóla

Í málum sem sett eru í formlegt ferli er lögð áhersla  á að afla nauðsynlegra gagna og upplýsinga í málinu frá málsaðilum áður en lagt er mat á næstu skref. Ef mál er þannig vaxið að því fylgi ákvörðun sem telst íþyngjandi fyrir málsaðila er fylgt ákvæðum stjórnsýslulaga . Þegar íþyngjandi ákvörðun er tekin er málsaðila ætíð leiðbeint hvernig hann getur vísað máli áfram sætti hann sig ekki við niðurstöðu skólans.

Síðast uppfært: 08.05.2018