Meðferð ágreiningsmála

Í Aðalnámskrá framhaldsskóla segir: 

Hver skóli setur sér reglur um boðleiðir og verklag um ágreiningsmál sem upp kunna að koma. Við vinnslu þeirra skal gæta ákvæða stjórnsýslulaga um málsmeðferð.

Í verklagsreglum skal koma fram:

•              með hvaða hætti nemanda, lögráða og ólögráða, er veitt viðvörun áður en til viðurlaga kemur, 

•              kostur á að andmæla fyrirhugaðri ákvörðun og tímafrestur tilgreindur í því skyni,

•              meðferð ágreiningsmála, kvartana og kæra vegna samskipta milli nemenda, kennara og/eða annars starfsfólks framhaldsskóla,

•              meðferð ágreiningsmála um námsframvindu,

•              meðferð undanþágubeiðna. 

Leitast skal við að leysa ágreiningsmál á vettvangi skóla. Uni nemandi eða forráðamaður hans ekki úrskurði í deilumáli má vísa málinu til mennta- og menningamálaráðuneytisins.

Framhaldsskólar skulu skrá feril máls þegar ágreiningsmál koma upp innan skólans eða þegar um brot á skólareglum er að ræða. Við meðferð mála skal sérstaklega gæta ákvæða stjórnsýslulaga, laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og upplýsingalaga (sjá Viðauka 1). Leitast skal við að afgreiða brot á skólareglum með skjótum hætti en jafnframt leggja áherslu á öryggi og vandvirkni við úrlausn og afgreiðslu.

Hvað gerist þegar deilur vakna, ágreiningur er reistur eða reglur og lög brotin?

Skólinn hvetur starfsfólk sem nemendur til þess að reyna að leysa ágreining sem kemur upp þeirra á milli. Ef mál leysast ekki með þeim hætti og þeim er vísað til skólans er það verklag haft að kennslustjóri sinnir málum sem snerta kvartanir vegna nemenda en konrektor tekur á málum sem snerta starfsfólk. Í öllum tilvikum er ferill máls þannig að byrjað er á að afla upplýsinga frá aðilum máls. Hér getur í fyrstu verið um að ræða viðtöl en ef það er mat skólans að málið sé alvarlegt er það sett í formlegra ferli þar sem óskað er eftir skriflegri greinargerð frá málsaðilum. Þegar mál telst upplýst er það viðkomandi stjórnanda að afgreiða málið sé þess nokkur kostur. Teljist mál alvarlegt og umleitanir kennslustjóra eða konrektors hafa ekki orðið til þess að sátt náist getur hvor málsaðili sem er vísað máli til rektors. Það sama geta kennslustjóri og konrektor einnig gert. 

Í sumum tilvikum er mál þannig vaxið, t.d. ef um málsmeðferð gilda án vafa ákvæði stjórnsýslulaga, að rektor ákveður að taka það úr höndum þeirra sem um það hafa fjallað. Rektor kallar þá eftir öllum gögnum í málinu, bæði frá málsaðilum sem og þeim starfsmönnum skólans sem komið hafa að málinu og tilkynnir um leið viðkomandi starfsmönnum að málið sé nú hjá honum og hann einn svari erindum vegna þess. Þegar svo er komið er farið með málið og málsmeðferðina í samræmi við stjórnsýslulög og önnur lög sem gilda um meðferð slíkra mála. Í öllum tilvikum er leitast við að afgreiða þessi mál innan þess tímaramma sem gefinn er í lögum. Úrskurður rektors er endanlegur, en ef málsaðili sættir sig ekki við þá niðurstöðu og telur að á sér sé brotið getur viðkomandi kvartað yfir þeirri niðurstöðu til mennta- og menningarmálaráðuneytis sem þá metur hvort ástæða sé að gera eitthvað frekar í málinu. 

Um rétt barna og unglinga sem ekki eru orðnir sjálfráða er meðal annars fjallað á vef Umboðsmanns barna. Þar er m.a.  fjallað um rétt til menntunar, meðferð persónuupplýsinga og fleira í þeim dúr. [fara á vef Umboðsmanns barna]Síðast uppfært: 13.08.2018