Námsmat og einkunnir
Námsmat
Ekki er sérstakur prófatími. Námsmat áfanga byggir á fjölbreyttum matsaðferðum þar sem metin er þekking, leikni og hæfni nemenda.
Námsmat gefur upplýsingar um stöðu nemandans í náminu og hvernig miðar að ná markmiðum áfanga. Námsmatið á að nýtast til að leiðbeina um næstu skref til að bæta frammistöðu nemenda í hverjum áfanga og í náminu í heild. Nánar er kveðið á um námsmat í námsáætlun hvers áfanga.
Stöðumat - Miðannarmat
Skólinn ákveður fyrir upphaf hvers skólaárs hvernig stöðumati skuli háttað.
Sérstök einkunnagjöf er fyrir stöðumatið þar sem gefið er G, V eða Ó. Viðmið skólans fyrir einkunnagjöf í stöðumati - miðannarmati þar sem tekið er tillit til einstaklings- para- og hópverkefna, prófa, samræðna, virkni, ástundunar og raunmætingar er eftirfarandi:
G Gott (frammistaða á bilinu 8 - 10) merkir að með sama áframhaldi mun nemandi ná góðum árangri í áfanganum.
V Viðunandi (frammistaða á bilinu 5 - 7) merkir að nemandi stendur sig þokkalega og góðar líkur á að með sama áframhaldi muni hann standast lágmarkskröfur eða ná þokkalegum árangri í áfanganum.
Ó Ófullnægjandi (frammistaða á bilinu 1 - 4) merkir að nemandi stendur sig illa og mun með sama áframhaldi að öllum líkindum falla í áfanganum.
Einkunnir
Í lok annar er gefin einkunn fyrir hvern námsáfanga sem nemandinn er skráður í. Einkunn er gefin í heilum tölum á bilinu 1 til 10. Lágmarkseinkunn í áfanga er 5. Í einstaka tilvikum er gefin einkunnin L (lokið) eða Ó (ólokið). Þegar nám er metið er almenna reglan sú að skráð einkunn heldur sér en í einstaka tilfellum er skráð M (metið). Í námsáætlun hvers áfanga kemur uppbygging námsmatsins fram.
Lágmarkseinkunn til stúdentsprófs
Einkunnir í einstökum áföngum eru gefnar í heilum tölum. Nemandi telst hafa staðist áfanga fái hann 5 eða hærra í lokaeinkunn í áfanganum. Til þess að ljúka stúdentsprófi við skólann þarf nemandi að uppfylla lágmarkskröfur í einstökum áföngum og ná hið minnsta einkunni 5 í vegnu meðaltali allra áfanga á námsbrautinni.
Einkunnatafla
Einkunnin 10 merkir að 95 - 100% markmiða var náð
Einkunnin 9 merkir að 85 - 94% markmiða var náð
Einkunnin 8 merkir að 75 - 84% markmiða var náð
Einkunnin 7 merkir að 65 - 74% markmiða var náð
Einkunnin 6 merkir að 55 - 64% markmiða var náð
Einkunnin 5 merkir að 45 - 54% markmiða var náð
Einkunnin 4 merkir að 35 - 44% markmiða var náð
Einkunnin 3 merkir að 25 - 34% markmiða var náð
Einkunnin 2 merkir að 15 - 24% markmiða var náð
Einkunnin 1 merkir að 0 - 14% markmiða var náð
Einkunnin L (lokið) merkir að 45 -100% markmiða var náð
Einkunnin Ó (ólokið) merkir að 0 – 44% markmiða var náð
Einkunnin M (metið) merkir að námið er metið
Birting einkunna
Einkunnir eru birtar nemendum rafrænt í lok hverrar annar. Hægt er að fá útprentað einkunnablað á skrifstofu.
Námsmatssýning/samtal
Á matsdegi í lok hverrar annar er haldin námsmatssýning þar sem nemendur geta átt samtal við kennara sinn um sundurliðað námsmat í áfanganum. Nemandi í símatsáfanga skal gera athugasemd við námsmat vegna verkefnis/prófa inni á önninni innan 5 virkra daga frá birtingu þess námsmats. Nemandi sem ekki unir námsmati í áfanga skal gera formlega athugasemd við námsmatið innan fimm virkra daga frá birtingu einkunnar í áfanganum.