Umhverfisfræði

Áfangar í umhverfisfræði við MS


UMHV2UM05(ms) - Umhverfisfræði - grunnáfangi

Í þessum  áfanga í umhverfisfræði vinna nemendur  með hugtök úr umhverfisfræði og nota þekkingu og umræðu til að tengja við sitt nærsamfélag.  Samtímis því eru nemendur þjálfaðir í þeim vinnubrögðum sem notuð eru við kennslu í þessari grein. Nemendur vinna sjálfstætt og saman í hópum þar sem áhersla er lögð á ábyrgð nemandans á eigin námsframvindu og mótun afstöðu til umhverfistengdra málefna. Efnisþættir sem teknir verða fyrir í áfanganum eru:  Jörðin, uppbygging og hringrásir. Saga umhverfisfræðinnar. Hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar, Ríó ráðstefnan og niðurstöður hennar. Umhverfissiðfræði. Orkugjafar jarðar, mismunandi valkostir. Alþjóðleg samvinna í umhverfismálum eins og í loftslagsmálum, líffræðilegum fjölbreytileika og mengun. Stefnumótun Íslands í umhverfismálum. Neyslusamfélag og vistvænn lífsstíll.

UMHV3OA05(ms) - Orka og auðlindir

Nemendur vinna með hugtök, þekkingu og umræðu úr umhverfisfræði sem tengjast orkugjöfum og auðlindanýtingu. Nemendur kynnast mismunandi orkugjöfum, hvernig þeir eru nýttir til orkuframleiðslu og hvaða áhrif þeir hafa eftir staðsetningu í heiminum. Skoðuð eru neikvæð áhrif óendurnýjanlegra orkugjafa sem hafa aukið kröfu á notkun endurnýjanlegra auðlinda til orkuframleiðslu. Áhrif tækniframfara á nýtingarmöguleika mismunandi orkugjafa og framtíðarsýn. Nemendur vinna sjálfstætt og saman í hópum þar sem áhersla er lögð á ábyrgð nemandans á eigin námsframvindu og mótun afstöðu til umhverfistengdra málefna.

Forkröfur: UMHV2UM05(ms).

UMHV3UH05(ms) - Umhverfishagfræði

Nemendur vinna með hugtök, þekkingu og umræðu úr umhverfishagfræði. Nemendur kynnast mismunandi aðferðum sem notaðar eru til að meta virði náttúru og umhverfisgæða. Kynnast helstu umhverfisstjórnunarkerfum. Nemendur kynna sér aðferðir sem eru notaðar til að stýra auðlindanýtingu til dæmis í fiskveiðum eða stjórnun ferðamannastraums. Einnig hvernig fyrirtæki og stofnanir nota aðferðir til að innleiða umhverfisvænni ferla í starfsemi sinni. Nemendur læra um þau umhverfisgæði sem falla utan við hefðbundin markaðslögmál. Nemendur vinna sjálfstætt og saman í hópum þar sem áhersla er lögð á ábyrgð nemandans á eigin námsframvindu og mótun afstöðu til umhverfistengdra málefna,

Forkröfur: UMHV2UM05(ms).

UMHV3GF05 -Grænfánaverkefni

Í áfanganum kynnast nemendur verkferlum þess umhverfisstjórnunarkerfis sem verkefnið Skólar á grænni grein/Grænfánaverkefnið byggir á. Nemendur ganga þannig í gegnum sjö skref í átt að grænfána en þau eru eftirfarandi: 1) að stofna umhverfisnefnd, 2) að meta stöðu umhverfismála, 3) að útbúa aðgerðaráætlun í umhverfismálum, 4) að sinna eftirliti og endurmati, 5) að búa til námsefni og tengja við aðalnámskrá, 6) að upplýsa og fá aðra með og 7) að semja umhverfissáttmála og umhverfisstefnu. Nemendur velja sér jafnframt þema til að vinna með af þeim þemum sem í boði eru innan verkefnisins. Áfanginn er í grunninn nemendastýrður. Kennari hefur utanumhald með áfanganum og kemur að honum sem leiðbeinandi og aðstoðarmaður en nemendur sjá fyrst og fremst um alla framkvæmd. 
Síðast uppfært: 20.03.2022