Líffræði

Áfangar í líffræði við MS


LÍFF2NL05(ms) - Nýtt líf

Í áfanganun verða ýmis grundvallarhugtök líffræðinnar reifuð ásamt frumunni sem er minnsta eining lífs. Þá verða kynntar lífverur sem viðhafa mismunandi leiðir til að fjölga sér. Kynfæri mannsins verða tekin fyrir sérstaklega og hormónastarfsemi þar að lútandi. Hluti áfangans snýr að kynfræðslu með kynningu á helstu kynsjúkdómum og getnaðarvörnum. Þá verður tekin fyrir klassísk erfðafræði og skoðað hvernig ákveðin einkenni erfast frá einni kynslóð til annarrar. Að lokum verður þróunarfræði til umfjöllunar og skoðað hvernig stökkbreytingar hafa leitt til þróunar lífs.

LÍFF2NH05(ms) - Næring og hreyfing

Í áfanganum er sjónum beint að líkamsstarfsemi sem tengist vinnslu og nýtingu næringar og grunnstarfsemi sem snýr að hreyfigetu líkamans. Fjallað verður um ólífræn og lífræn efni sem líkaminn notar til uppbyggingar og brennslu. Þá verður farið í byggingu og starfsemi öndunarfæra, blóðrásarkerfis, stoðkerfis og meltingarfæra. Nemendur gera athuganir á áhrifum næringar á líkamsstarfsemina og í framhaldi verða skoðaðar mismunandi kenningar um heppilegt mataræði. Þá verða könnuð viðbrögð líkamans við áreynslu s.s. breytingar í púls og blóðþrýsting. Vistfræði er fléttuð inn í áfangann og þá sérstaklega orkuflæði milli lífvera, hringrásir efna og áhrif mannsins á þessa þætti. Þessir þættir eru tengdir við umræðuna um uppsprettu fæðunnar. 

Forkröfur: LÍFF2NL05(ms).

LÍFF2BL05(ms) - Boðskipti lífvera

Þema áfangans er samskipti  innan og á milli lífvera í víðum skilningi. Hér verða kynntar til  sögunnar ýmsar lífverur sem hafa misflókið boðskiptakerfi. Síðan beinist  athyglin að manninum. Farið verður í byggingu og starfsemi tveggja  helstu boðflutningskerfa mannslíkamans, innkirtlakerfi og taugakerfi.  Skoðuð verða áhrif efna s.s. vímuefna á heilann, minnismyndun,  námsstöðvar o.fl. Síðan verða teknir fyrir skynnemar og skynfæri.  Fjallað verður um heilbrigða starfsemi en einnig frávik frá eðlilegri  líkamsstarfsemi t.d. röskun á eðlilegum frumusamskiptum sem leiða til  krabbameinsmyndunar. Eiturefnavistfræði er tekin fyrir í áfanganum og  athugað hvernig og hvaða mengunarþættir í umhverfinu geta haft áhrif á  boðkerfi. Að lokum verða tekin fyrir vistkerfi á norðlægum slóðum og  kannað að hvaða leyti slík vistkerfi eru viðkvæm fyrir röskun af  mannavöldum.

Forkröfur: LÍFF2NH05(ms).

LÍFF3AT05(ms) - Atferlisfræði

Í áfanganum verður farið í þróun og erfðir atferlis dýra. Borið verður saman meðfætt og áunnið atferli. Skoðaður verður sérstaklega mismunandi samskiptamáta dýra bæði innan tegundar og milli tegunda. Þá verða krufin félagskerfi tiltekinna dýrategunda, mökunaratferli, fæðuval og fórnfýsi eða eigin hagsmunir einstaklinga innan tegundar. Atferli dýra verður tengt vistfræði og skoðað með tilliti til búsvæðavals og fleiri þátta. Fjallað verður um áhrif atferlis á stofnvöxt lífvera. Gerðar verða athuganir á atferli og hegðun dýra og reynt verður að finna ástæður og tilgang með hegðun þeirra. Skoðuð verða líffæri og líkamshlutar dýra sem tengjast atferli og hegðun dýra t.d. blekkirtill í smokkfiski.

Forkröfur:  LÍFF2BL05(ms).

LÍFF3ÖF05(ms) - Örverufræði

Hugtakið örverur er skilgreint og helstu hópar lífvera sem falla undir það skoðaðir. Megináhersla verður þó á bakteríur og veirur. Fjallað verður um þróun lífs frá dreifkjarna lífverum til flóknari lífvera. Þá verður skoðað hlutverk örvera í vistkerfum og mikilvægi baktería í daglegu lífi mannsins. Kynntir verða mismunandi hópar sjúkdómsvaldandi örvera, greining þeirra og meðferð. Farið verður í grunnþætti ónæmiskerfis mannsins og viðbrögð þess við sýkingum. Tekið verður til umræðu hættan sem að okkur steðjar af sívaxandi fjölda sýklalyfjaónæmra baktería og kannaðar leiðir sem menn sjá helst fyrir sér að geti leitt til nýrrar kynslóðar sýklalyfja. Ónæmisaðgerðir s.s. bólusetningar verða kynntar. Að lokum verður komið inn á hagnýtingu örvera t.d. í líftækni, erfðatækni og öðrum iðnaði.

Forkröfur: LÍFF2BL05(ms).

LÍFF3LO05(ms) - Lokaverkefni í líffræði

Áfanginn tekur mið af heimildaöflun og rannsóknarvinnu. Lögð er áhersla á að nemandi samþætti þá þekkingu og færni sem hann hefur tileinkað sér í undangengnum áföngum. Meginmarkmið áfangans er að brjóta niður veggi milli fyrri áfanga og greina, rifja upp efni þeirra og setja það í víðara samhengi en áður hefur verið gert. Hver nemandi vinnur einstaklings heimildaverkefni. Nemendur framkvæma rannsókn í hópavinnu og vinna rannsóknarskýrslu og veggspjald úr rannsókninni. Þeir kynna rannsókn sína fyrir samnemendum með fyrirlestri. Einnig kynna þeir veggspjaldið á ráðstefnu í skólanum. Nemendur velja efnisþætti í samráði við kennara hverju sinni. Sjálfstæð vinnubrögð nemenda eru höfð í fyrirrúmi með leiðsögn frá kennara.

Forkröfur: LÍFF3AT05(ms) eða LÍFF3ÖF05(ms).
Síðast uppfært: 21.03.2018