Íslenska

Áfangar í íslensku við MS

Nemendur á félagsfræðabraut þurfa að taka 5 áfanga í íslensku (á öðru og þriðja hæfnistigi) en nemendur á náttúrufræðibraut þurfa að taka 4 áfanga.

ÍSLE2LR05(ms) - Íslenska lestur og ritun

Læsi, ritun og framsögn verða meginatriði þessa byrjunaráfanga. Lögð er áhersla á lestur fjölbreyttra texta, byggingu hvers kyns ritsmíða og frágang þeirra og munnlega tjáningu. Nemendur kynnast sögu tungumálsins, lesa a.m.k. eina nútímaskáldsögu og fá þjálfun í notkun bókmenntahugtaka. Lögð er áhersla á að nemendur nái ákveðinni færni í lesskilningi og stafsetningu. Einnig fá nemendur þjálfun í margvíslegri textagerð, heimildaritgerð ásamt meðferð og skráningu heimilda og skapandi skrifum.

Forkröfur: Einkunn B á grunnskólaprófi eða ÍSLE1GR05.

ÍSLE2FB05(ms) - Fornbókmenntir

Nemendur lesa vandlega forna texta, bæði í bundnu og óbundnu máli. Þeir fá innsýn í norrænan hugmyndaheim og goðafræði gegnum fornsögur, Snorra-Eddu og eddukvæði. Auk þess kynnast nemendur fræðilegri umfjöllun um íslenskar fornbókmenntir og fá þjálfun í gerð heimildaritgerða og skapandi verkefna.

Forkröfur: ÍSLE2LR05(ms).              

ÍSLE3HB05(ms) - Höfuðverk íslenskra bókmennta

Í þessum áfanga kynnast nemendur höfuðverkum íslenskra bókmennta frá 1550-2000 með aðaláherslu á 20. öldina. Lesin verða valin skáldverk. Nemendur fá þjálfun í greiningu ljóða og lausamáls og lesa vandlega eina viðamikla skáldsögu. Einnig fá nemendur þjálfun í ritun þar sem lögð er áhersla á rökstudda og gagnrýna afstöðu þeirra til viðfangsefnisins.

Forkröfur: ÍSLE2FB05 eða sambærilegur áfangi.

ÍSLE3SB05(ms) - Samtímabókmenntir

Nemendur kynnast ýmsum  tegundum bókmennta á 21. öld og setja þær í samhengi við ríkjandi  strauma og stefnur bókmenntasögunnar. Aðalgreinar bókmennta verða  skoðaðar, þ.e. leikrit, ljóð og sögur, bæði reyndra og óreyndra höfunda.  Vinsælum nýjungum dægurmenningarinnar verður gerð nokkur skil, t.d.  skvísubókmenntum, vampírusögum, spennusögum og myndasögum. Einnig verður  sjónum beint að öðru birtingarformi bókmenntanna, á borð við myndlist,  tónlist og kvikmyndir.

Forkröfur: ÍSLE3HB05(ms).

ÍSLE3MS05(ms) - Mál og samfélag

Nemendur rýna í hvers kyns málnotkun og máltækni, t.d. á Veraldarvefnum og í (öðrum) fjölmiðlum. Skoðuð verða mismunandi málsnið, t.d. kyn- og aldursbundin, og þýðingar. Rafmál verður skoðað sérstaklega, ásamt slangri og nýyrðum, og áhrif dægurmenningar á tungumálið, sem og markaðssetning. Nemendur fá þjálfun í rannsóknaraðferðum og skýrslugerð. Leitast verður við að gera nemendur meðvitaðri um bæði málnotkun sína og annarra og hjálpa þeim að temja sér gagnrýna hugsun.

Forkröfur: ÍSLE3HB05(ms).

ÍSLE3TS05(ms) - Tjáning og samskipti

Nemendur fá þjálfun í munnlegri og skriflegri tjáningu. Veitt verður innsýn í heim sagnalistar, að fornu og nýju m.a. þjóðsögur nútímans og fyrri tíðar. Lögð verður áhersla á tengsl tungumálsins og ólíkra miðlunarleiða, samræðutækni, umræður og virka hlustun ásamt gagnrýninni og skapandi hugsun. Nemendum gefst einnig tækifæri til að tjá sig í rituðu máli og semja hvers kyns texta, svo sem ljóð, ræðu, örsögu o.fl.

Forkröfur: ÍSLE3HB05(ms).

ÍSLE3YL05(ms) - Yndislestur í íslensku

Valgreinin er ætluð nemendum sem hafa áhuga á bókmenntum. Megináhersla er lögð á upplifun og skilning og að nemendur lesi sér til uppbyggingar og ánægju. Áfanganum er ætlað að auka lestur nemenda á bókmenntaverkum, bæði klassískum og dægurbókmenntum. Bækur verða ákveðnar eftir áhugasviði nemenda en í samráði við kennara. Allir skulu lesa a.m.k. tvær bækur sem talist geti til „heimsbókmennta“. Kennari útbýr leslista með tillögum. Leslistinn er fyrst og fremst leiðbeinandi en nauðsynlegt er að bera þau verk sem ekki eru á lista undir kennara. 

Forkröfur: ÍSLE3HB05(ms).Síðast uppfært: 21.03.2018