Franska

Áfangar í frönsku í MS

Nemendur sem velja frönsku sem þriðja mál þurfa að ljúka 15 einingum í frönsku.


FRAN1GR05(ms) - Grunnáfangi

Um er að ræða byrjunarnám og er megináhersla lögð á að nemendur tileinki sér undirstöðuatriði tungumálsins. Frá upphafi fá nemendur þjálfun í færniþáttunum fjórum: tali, hlustun, ritun og lesskilningi. Áhersla er lögð á framburð, grunnatriði málnotkunar og uppbyggingu orðaforða tungumálsins. Nemendur kynnast menningu, siðum og staðháttum viðkomandi málsvæða. Í lok ársins eiga nemendur að hafa náð kunnáttu upp á stig A1 samkvæmt Evrópska tungumálarammanum.

FRAN1MÁ05(ms) - Málfræði, málnotkun og menning tungumálsins

Áfram er unnið að aukinni færni nemenda í lesskilningi, tali, hlustun og ritun. Textar verða smám saman lengri og þyngri. Orðaforði er aukinn, nemendur þjálfast í nýjum málfræðiatriðum og að mestu er lokið við að fara yfir grundvallarþætti málkerfis tungumálsins. Nemendur vinna með ýmis konar kennsluefni, lesa einfalda skáldsögu eða smásögur og leysa ýmis verkefni þar að lútandi. Einnig er myndefni fléttað inn í kennsluna eftir föngum. Haldið er áfram að kynna menningu og staðhætti viðkomandi málsvæða. Hvatt er til aukins sjálfstæðis nemenda í vinnubrögðum og að þeir nýti sér ýmis hjálpargögn, s.s. orðabækur, málfræðibækur og Netið við upplýsingaöflun. Í lok ársins eiga nemendur að hafa náð kunnáttu upp á stig A2 samkvæmt Evrópska tungumálarammanum.

Forkröfur: FRAN1GR05(ms).

FRAN1FR05(ms) - Framhaldsstig í málfræði og málnotkun

Í þessum fyrri hluta annars þreps er áfram unnið að aukinni færni nemenda í lesskilningi, tali, hlustun og ritun og orðaforði aukinn jafnt og þétt. Leitast er við að nemendur fái aukin tækifæri til að tjá sig. Nemendur þjálfast í nýjum málfræðiatriðum og farið er dýpra í málfræðiatriði fyrra þreps. Unnið er með ýmisskonar kennsluefni samhliða því sem unnið er með annað efni s.s. lestur ýmissa skáldverka, rauntexta, hlustunar- og myndefni. Lögð er ríkari áhersla á menningu og þjóðfélagsmál og önnur svið samfélagsins. Nemendur vinna sjálfstæð verkefni og miðla þeim jafnt munnlega sem skriflega. Í lok ársins eiga nemendur að hafa náð kunnáttu upp á stig A2-B1 samkvæmt Evrópska tungumálarammanum.

Forkröfur: FRAN1MÁ05(ms).

FRAN2ES05(ms) - Málnotkun og menningarlæsi

Áfram er unnið að  aukinni færni nemenda í lesskilningi, tali, hlustun og ritun og  orðaforði aukinn jafnt og þétt. Leitast er við að nemendur fái aukin  tækifæri til að tjá sig. Farið er dýpra í málfræði eftir þörfum. Á  seinni hluta annars þreps er námsefnið að mestu þematengt, þar sem  fengist er við menningu, listir og önnur svið þjóðlífsins. Lesnir eru  textar af ýmsu tagi, s.s. bókmenntatextar og blaðagreinar. Farið er  dýpra í texta en áður. Þá eru önnur menningar- og listform tekin fyrir.  Nemendur vinna sjálfstæð verkefni og miðla þeim jafnt munnlega sem  skriflega. Franskar kvikmyndir verða sýndar. Í lok ársins eiga nemendur  að hafa náð kunnáttu upp á stig B1-B2 samkvæmt Evrópska  tungumálarammanum.

Forkröfur: FRAN1FR05(ms).

FRAN2PA05(ms) - París

Í valáfanganum París kynnast nemendur  ýmsu markverðu í sögu Parísar, listasögu og hvað varðar mannlíf í  borginni. Valin eru umfjöllunarefni sem alla jafna vekja áhuga hjá þeim  sem ætla til borgarinnar og vilja öðlast þekkingu og skilning fyrirfram.  Áfanginn snýst um verkefnavinnu um sögu Parísar, íbúana og hverfin.  Jafnframt skipuleggja nemendur þriggja daga námsferð til Parísar og þess  vegna er mikil áhersla lögð á tungumálið. Í ferðinni er Louvre safnið  heimsótt, en einnig Versalir, þekkt borgarhverfi og aðrir frægir  ferðamannastaðir. Frjáls tími til athafna er gefinn og er það oft á þeim  stundum sem góðar sögur um samskipti verða til og ákveðið  menningarflæði á sér stað. Áfangann er hægt að fá metinn án ferðarinnar  með því að skila sérstöku aukaverkefni. 

Forkröfur: FRAN1MÁ05(ms).


Síðast uppfært: 17.08.2022