Félagsfræði

Áfangar í félagsfræði við MS

Nemendur á náttúrufræðibraut eru með einn áfanga í félagsfræði í skyldu. Nemendur á hagfræði og stærðfræðilínu eru með tvo áfanga í skyldu en nemendur á félagsfræði og sögulínu eru með fjóra áfanga í skyldu.

FÉLA2ES05 (ms) - Einstaklingurinn og samfélagið

Þetta er byrjunaráfangi í félagsfræði sem fjallar um grunnvirkni samfélagsins og hvaða áhrif það hefur á einstaklinginn og líf hans. Nemendur læra að beita félagsfræðilegu sjónarhorni á virkni samfélagsins. Helstu kenningar félagsfræðinnar verða kynntar þ.e. samvirkni, samskipta- og átakakenningar, sem og frumkvöðlar félagsfræðinnar. Lögð er áhersla á að nemendur kynnist menningu, trúabrögðum og virkni ólíkra samfélaga og öðlist færni í að taka virkan þátt í samfélagslegum umræðum, myndi sér skoðanir á meðvitaðan og gagnrýninn hátt. Nemendur læra félagsfræðileg hugtök og kynna sér félagslega þætti sem stýra hugsun og athöfnum einstaklinga innan samfélagsins. Meginmarkmið áfangans er að nemendur átti sig á því hvernig samfélagið hefur áhrif á þá og hvernig þeir geta haft áhrif á samfélagið.

FÉLA2KR05(ms) - Kenningar og rannsóknaraðferðir í félagsfræði

Í þessum áfanga er lögð áhersla á helstu kenningar félagsfræðinnar s.s. samvirkni-, átaka- og samskiptakenningar. Það verður unnið með hugmyndir frumkvöðla greinarinnar og leitast við að skilja tengsl við ólíkar kenningar. Nemendur kynnast rannsóknaraðferðum félagsfræðinnar þar sem farið verður yfir nokkrar þekktar rannsóknir. Nemendur eru þjálfaðir í að beita eigindlegum og megindlegum rannsóknaraðferðum og tengja ólíkum kenningum. Unnið verður með tengsl einstaklinga og samfélags í ljósi ólíkra kenninga. Farið verður yfir vítt svið félagsfræðinnar og nemendur eru þjálfaðir í að beita félagsfræðilegu innsæi við túlkun á samfélaginu, bæði almennt og á tiltekin viðfangsefni. Þeir læra að fylgja vísindalegu rannsóknarferli þar sem lögð er áhersla á aðferðafræðileg og siðferðisleg vandamál tengd rannsóknum í félagsvísindum. Helstu áherslur áfangans eru að auka áhuga, þekkingu og skilning nemenda á kenningum og rannsóknaraðferðum. Nemendur eiga að vera færir um að meta, taka afstöðu og fjalla á gagnrýninn hátt um rannsóknir í félagsvísindum og beita þeim í nokkru mæli.

Forkröfur: FÉLA2ES05(ms).

FÉLA2KY05(ms) - Kynjafræði

Í áfanganum eru tekin fyrir grunnhugtök kynjafræðinnar.  Fjallað er um sögu jafnréttismála og jafnréttisbaráttu á Íslandi og erlendis.  Varpað er skýru ljósi á hugtök eins og staðalmyndir, kyngervi, kynhlutverk, feðraveldi svo eitthvað sé nefnt.  Einnig er fjallað um kynbundið ofbeldi, mansal, klám og klámvæðingu. Ýmsar birtingamyndir kynjaskekkju eru skoðaðar og greindar. Efnið er sett í samhengi við dægurmál sem tengjast kynjafræði og daglegu lífi nemenda. Þannig verður sértaklega fjallað um þátt fjölmiðla og félagsmótunaraðila með gleraugum kynjafræðinnar. Nemendur eru hvattir til að taka mikinn þátt og hafa áhrif á efnisþætti áfangans. Þannig byggir áfanginn á virkni og þátttöku nemenda þar sem reyndir á sjálfskoðun, greiningu  á umhverfi sínu og umræður um eigin viðhorf jafnt og annarra.

Forkröfur: FÉLA2ES05(ms).

FÉLA2SF05(ms) - Stjórnmálafræði

Í áfanganum er stjórnmálafræði kynnt sem fræðigrein. Lögð er áhersla á að nemendur vinni með hugtök og öðlist skilning á hugmyndafræði greinarinnar. Þá verða mismunandi stjórnmálastefnur kynntar og nemendur læra hvernig túlka má ólík stjórnmálakerfi og stjórnmálaþátttöku út frá mismunandi kenningum með áherslu á Ísland. Fjallað er um lýðræði þ.e. inntak þess, form og framkvæmd. Nemendur munu átta sig á ólíkum hagsmunaaðilum innan stjórnmála og virkni valdsins. 

Forkröfur: FÉLA2ES05(ms).

FÉLA3AF05(ms) - Afbrotafræði

Framhaldsáfangi þar sem lögð er áhersla á að beita kenningum og rannsóknaraðferðum með það að markmiði að auka þekkingu nemenda á afbrotafræði sem fræðigrein. Nemendur öðlast færni í að beita helstu hugtökum afbrotafræðinnar, vinna með áhrif frávika á samfélagið, og skilgreiningu og flokkun afbrota. Einnig er leitast við að nemendur þekki samhengi menningar og afbrota. Mikilvægt er að nemendur geti greint hið félagslega ferli er liggur að baki hegðun afbrotamanna.  Þannig er lögð áhersla á að nemandinn geti fjallað um frávik og afbrot út frá félagsfræðilegu sjónarhorni og beitt félagsfræðilegum hugtökum og kenningum á efnið.

Forkröfur: FÉLA2KR05(ms).

FÉLA3ÞR05(ms) - Þróunarlönd 

Framhaldsáfangi þar sem lögð er áhersla á alþjóðasamfélagið með áherslu á samskipti ríkja og alþjóðastofnanna.  Það verður fjallað um hnattvæðingu og þróunarlönd.  Helstu hugtök skilgreind og velt fyrir sér stöðu þróunarlanda og hnattvæðingar.  Tekið verður á orsökum og afleiðingu fátæktar í þróunarlöndum. Borin verða saman þróunarlönd og þróuð lönd og samskipti þeirra skoðuð.  Íslensk nútímasamfélag verður sérstaklega skoðað í því samhengi.  Þróunarhjálp og þróunarsamvinna verður skilgreind í sögulegu ljósi. Kynntar verða helstu kenningar um þróun og þróunarsamvinnu.

Forkröfur: FÉLA2KR05(ms).

FÉLA3LO05(ms) - Lokaverkefni

Í áfanganum er lögð áhersla á að nemandi nýti sér þá þekkingu og færni sem hann hefur tileinkað sér úr félagsfræðinámi sínu í skólanum með sérstakri áherslu á aðferðafræði, rannsóknarvinnu og heimildaöflun. Nemendur velja sér rannsóknarefni í samráði við kennara hverju sinni. Í rannsókn sinni geta nemendur byggt á fyrri þekkingu sinni úr námi sínu. Nemendur vinna rannsóknarverkefni ýmist sem einstaklings-, para- eða hópverkefni. Aðrannsóknarvinnu lokinni er unnin rannsóknarskýrsla og annað kynningarefni. Nemendum er ætlað að kynna rannsókn sína fyrir samnemendum t.d. á veggspjöldum, myndbandi, vefsíðu, bæklingi eða glærum. Mikið er lagt upp úr sjálfstæðum vinnubrögðum nemenda þó kennari muni veita þeim leiðsögn.

Forkröfur:  5 fein á 3. þrepi í félagsfræði.
Síðast uppfært: 11.06.2020