Nám við Menntaskólann við Sund

Í Aðalnámskrá framhaldsskóla segir m.a. eftirfarandi:

„Framhaldsskólum ber að búa nemendur sína undir líf, starf og frekara nám. Skólarnir gegna því veigamiklu hlutverki hvað varðar almenna menntun og félagslegt uppeldi nemenda auk þess sem þeir skulu vera vettvangur fyrir kynningu þjóðlegra og alþjóðlegra menningarverðmæta.“

Markmið með námi til stúdentsprófs í MS

Menntaskólinn við Sund er bóknámsskóli sem býður nemendum upp á fjölbreytilegan undirbúning undir nám á háskólastigi á tveimur námsbrautum, félagsfræðabraut og náttúrufræðibraut, þar sem nemendur hafa talsvert frelsi til að velja sér námsleiðir innan brautanna og þvert á brautir. Í skólanámskrá er gert ráð fyrir að nemendur nýti þekkingu sína á skapandi átt í fjölbreytilegri verkefnavinnu, rækti með sér læsi í víðum skilningi, gagnrýna hugsun, virðingu fyrir menningar-arfleifð og náttúru, siðvit og ábyrgðarkennd. 

Náms og kennsluhættir

Virðing - Jafnrétti -Ábyrgð – Heiðarleiki

Meginmarkmið Menntaskólans við Sund er fjölbreytni í náms- og kennsluháttum með það að leiðarljósi að örva virkni og þátttöku nemenda. Lögð er áhersla á skapandi nám þar sem einstaklingar fá að njóta sín í verkefnabundnu og samvinnutengdu námi. Nemendur fá tækifæri til afla sérþekkingar, leikni í að vinna með hana og hæfni til að nýta með ólíkum hætti.

Stefna skólans kallar á námsvenjur þar sem ábyrgð nemenda á eigin námi, mæting, virkni og þátttaka gegna lykilhlutverki. Mikilvægt er að nemendur vinni jafnt og þétt, ástundi heiðarleg vinnubrögð og þjálfi með sér þrautseigju þar sem mistök eru eðlilegur hluti af námsferlinu.

Skólinn hvetur kennara til nýbreytni- og þróunarstarfs þar sem horft er bæði til innihalds náms og námsumhverfis.

Í námsáætlun hvers áfanga kemur fram nánari útfærsla á náms-og kennsluháttum.

Skipulag náms við Menntaskólann við Sund

Nám til stúdentsprófs í MS er 200 einingar

Námið er skipulagt þannig að það veiti sem bestan undirbúning undir frekara nám á háskólastigi

Nemendur velja sér sérhæfða námslínu innan brautar og eina sérhæfingu til viðbótar óháða braut

Áfangar eru skipulagðir í samræmi við hæfnikröfur

Áhersla er á umhverfismál og skapandi námsgreinar

Nemandi ræður sjálfur námshraða sínum

Skólinn leggur áherslu á:

 • Nemendavænt umhverfi.
 • Fjölbreytta kennsluhætti og öflugt þróunarstarf.
 • Góðan starfsanda.
 • Góðan undirbúning fyrir háskólanám og faglega ráðgjöf.
 • Góðan og nútímalegan aðbúnað til náms og kennslu.
 • Alþjóðlegt samstarf nemenda og kennara.
 • Virkt sjálfsmat.
 • Aðstoð við nemendur með námsörðugleika.
 • Sjálfstæð vinnubrögð nemenda.
 • Öflugt félagslíf nemenda og virkt forvarnastarf.

Námslok - Stúdentspróf

Að loknu námi eru gerðar eftirfarandi kröfur til nemenda:

 1. Nemendur uppfylli skilyrði til náms á háskólastigi.
 2. Nemendur hafi öðlast víða sýn á samfélagið sem auðveldar þeim náms- og starfs­val.
 3. Nemendur hafi  almenna þekkingu en jafnframt trausta yfirlits­þekk­ingu á kjörsviði. Það felur í sér að nemendur:
  • Séu vel að sér um bókmenntir og listir og kunni að njóta þeirra.
  • Þekki réttindi sín og skyldur sem þegnar lýðræðisríkis.
  • Séu vel að sér um umhverfismál og meðvitaðir um ábyrgð sína gagnvart lífríkinu.
  • Séu meðvitaðir um rætur íslenskrar menningar, sérstöðu Íslands, stöðu þess í alþjóðasamfélaginu og ábyrgð gagnvart því.
 4. Nemendur hafi tamið sér öguð vinnubrögð og hæfni til að takast á við ný viðfangsefni. Það felur í sér að nemendur:
  • Hafi gott vald á íslensku máli, bæði í ræðu og riti.
  • Hafi góða færni í ensku og í a.m.k. tveimur öðrum ev­rópsk­um tungumálum.
  • Geti unnið skipulega að verkefnum, bæði sjálfstætt og með öðrum.
  • Geti af eigin rammleik aflað upplýsinga á margvíslegan hátt, t.d. notað bókasöfn, ýmis uppfletti­rit og tölvunet..
  • Geti beitt þekkingu sinni á ný viðfangsefni.
  • Geti veitt og þegið uppbyggilega gagnrýni og rökstutt hugmyndir sínar.
 5. Nemendur hafi tamið sér góða framkomu. Það felur í sér að nemendur:
  • Beri virðingu fyrir sjálfum sér og öðru fólki, óháð skoðunum þess, trú og útliti.
  • Virði umhverfi sitt.
  • Temji sér skilvísi, stundvísi og almenna kurteisi.
 6. Nemendur hafi trú á hæfileikum sínum og geri sér ljóst að þeir bera sjálfir ábyrgð á námi sínu.

Réttindi að námi loknu

Stúdentspróf veitir rétt til inngöngu í háskóla og skóla á háskólastigi eftir nánari ákvæðum hvers skóla. Menntaskóli veitir góða almenna menntun sem telst ágætur undir­búningur að ýmsum störfum. Stúdentspróf úr mennta­skóla veitir hins vegar engin lög­vernduð starfsréttindi.

Síðast uppfært: 17.08.2022