Nemendur MS eru frábærir

Það er afar ánægjulegt að greina frá því að þrátt fyrir að upp hafi komið smit í MS og yfir 80 manns verið settir í skóttkví hafi sóttvarnir í skólanum haldið. Allir sem voru settir í sóttkví ættu nú að hafa fengið niðurstöðu sýnatöku og við höfum engar upplýsingar um að smit hafi dreift sér innan skólans. Kannski getum við þakkað lukkunni en líklegt er að gott skipulag sóttvarna í MS hafi þar skipt nokkru. Mikilvægast af öllu er þó það að nemendur MS hafa fylgt reglum um sóttvarnir og hugað að eigin sóttvörnum. Allir nota grímur, allir eru duglegir að þvo hendur og sótthreinsa og allir gæta að fjarlægðarmörkum. Þetta er það mikilvægasta og því eiga nemendur skilið okkar bestu þakkir fyrir þeirra framlag.

Það er ekki bara þannig að það þurfi að sýna sjálfsaga, þolinmæði, þrautseigju og mikla samfélagslega vitund og úthald þegar kemur að sóttvörnum. Í náminu reynir líka á þrautseigjuna, úthaldið og sjálfsagann. Námið er flóknara við þessar aðstæður og það reynir verulega á nemendur að halda stefnunni í náminu. Þegar fer að síga á seinni hluta annarinnar fer að reyna verulega á seigluna en full ástæða er til bjartsýni þar sem hópurinn í MS er einstaklega einbeittur og sterkur.