Höfðingleg gjöf Elísabetar Jökulsdóttir skáldkonu

Ástin og taugahrúgan

Elísabet Jökulsdóttir skáldkona hefur fært nemendum Menntaskólans við Sund 50 eintök af ljóðabókinni Ástin ein taugahrúga: Enginn dans við Ufsaklett að gjöf. Bókin kom út árið 2014 og hlaut hún Fjöruverðlaun í flokki fagurbókmennta og var auk þess tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Þessari höfðinglegu gjöf Elísabetar fylgdu fimm eintök af annarri ljóðabók sem kom út árið 2018 og ber titilinn Stjarna á himni: Lítil sál sem aldrei komst til jarðar. Báðar bækurnar taka á býsna erfiðu efni. Fyrri bókin geymir hispurslausa lýsingu á ofbeldissambandi og hin síðari fjallar um sorg í kjölfar fósturláts.

Elísabet Jökulsdóttir skáldkona. Ljósmynd; Spessi.

(Elísabet Jökulsdóttir skáldkona. Ljósmynd: Spessi)

Elísabet hefur sent frá sér hátt í 30 verk, sögur, ljóð og leikrit, og mörg eru þau sjálfsævisöguleg. Hún sækir gjarna efnivið í eigin reynslu og tekst á við afar viðkvæm og erfið viðfangsefni sem snúa að sálarlífi manneskjunnar. Slík nálgun er afar vandmeðfarin en þarna tekst Elísabetu hvað best upp með djúpviturt innsæi og einstæðan frumleika að vopni. Margir þekkja Elísabetu af verkum hennar og jafnvel enn fleiri af forsetaframboðinu árið 2016 þar sem hún setti afar skáldlegan og frumlegan svip á baráttuna svo að eftir var tekið. Þannig er Elísabet, hún er ljóðrænn kraftur.

Nemendur geta nálgast bókagjöf Elísabetar í bókaskápnum í Þrísteini, á meðan birgðir endast.

Á heimasíðu Elísabetar má fræðast meira um ævi hennar og verk (http://elisabetjokulsdottir.is/Home/Index)