Ályktun Kennarafélags Menntaskólans við Sund

Kennarafélag Menntaskólans við Sund hafnar öllum hugmyndum um að leggja eigi skólann niður í núverandi mynd. Skólinn hefur á síðasta áratug farið í gegnum miklar kerfisbreytingar sem mælst hafa vel fyrir meðal nemenda og foreldra. Undanfarin ár hefur skólinn verið meðal vinsælustu framhaldsskóla landsins. Brottfall er með minnsta móti og útskriftarhlutfall skólans hátt.

Sérstaða skólans felst í þriggja anna námskerfi með áherslu á verkefnamiðað nám. Við skólann hefur farið fram mjög öflug starfsþróun kennara, leiðsagnarnám hefur verið innleitt í miklum mæli og starfendarannsóknir unnar af öflugum hópi starfsfólks. Allar þessar breytingar og þróun hafa verið unnar með farsæld nemenda að leiðarljósi. Að auki hefur verið byggð upp öflug nemendaþjónusta sem veitir öllum nemendum víðtækan stuðning. Skólinn er lifandi samfélag þar sem nemendum er búið jákvætt og metnaðarfullt umhverfi til náms og þroska, þar sem ólíkum einstaklingum er gefið tækifæri til að blómstra. Skólinn leggur áherslu á að styðja við fjölbreyttan hóp nemenda, m.a. með því að styðja sérstaklega við tvítyngda nemendur og nýnema, ásamt því að við skólann var sett á laggirnar starfsbraut síðasta sumar.

Staðsetning skólans hefur þótt afar heppileg þar sem mikil uppbygging á sér stað í nærumhverfi hans (í Vogabyggð og Ártúnshöfða) og þjónar skólinn stórum hluta austanverðs höfuðborgarsvæðisins. Áformaðar samgöngubætur, Borgarlína og Sundabraut, munu stuðla enn frekar að umhverfislegu mikilvægi þess að hafa jafn sterkan framhaldsskóla í alfaraleið. Teljum við því að lokun skólans yrði mikill missir fyrir nærliggjandi hverfi.

Menntaskólinn við Sund á sér áralanga sögu og er hluti af menningararfleifð landsins. Því væri afar sorglegt ef það metnaðarfulla skólastarf sem þar er unnið væri fórnað í hagræðingarskyni sem þjónar ekki velferð og farsæld unga fólksins okkar. Að lokum köllum við eftir því að breytingar á framhaldsskólakerfinu fari fram í samráði og samtali við alla þá sem þær munu snerta.

Virðingarfyllst,
Kennarafélag Menntaskólans við Sund